Lífið

„Krísufundur“ í Sandringham: Ýja að afhjúpandi viðtali fái hertogahjónin ekki sínu framgengt

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hertogahjónin af Sussex lögðu undir sig forsíður blaðanna í morgun.
Hertogahjónin af Sussex lögðu undir sig forsíður blaðanna í morgun. Vísir/getty

Bresku dagblöðin greina frá því í dag að hertogahjónin af Sussex, þau Harry Bretaprins og Meghan Markle, hyggist veita ítarlegt sjónvarpsviðtal, fái þau ekki sínu framgengt í viðræðum við Elísabetu Bretadrottningu. Síðar í dag fer fram „krísufundur“ konungsfjölskyldunnar í Sandringham, þar sem framtíðarhlutverk hjónanna innan fjölskyldunnar er á dagskrá.

Sjá einnig:  Megxit skekur Bretland: „Meghan fær það sem hún vill“

Tilefni fundarins er óvænt ákvörðun Harry og Meghan þess efnis að þau ætli sér að yfirgefa framlínu bresku konungsfjölskyldunnar og segja sig frá embættisskyldum sínum. Þau greindu jafnframt frá því í yfirlýsingu að þau hyggist verða „fjárhagslega sjálfstæð“.

Drottningin boðaði í kjölfarið til áðurnefnds fundar sem beðið er með mikilli eftirvæntingu í Bretlandi. Á meðal viðstaddra verða drottningin sjálf, Karl Bretaprins, Vilhjálmur Bretaprins og áðurnefndur Harry. Meghan tekur þátt í fundinum símleiðis en hún er nú stödd í Kanada, þar sem hertogahjónin ætla að búa sér heimili með syni sínum, Archie.

Viðtal við Opruh í burðarliðnum?

Forsíður bresku dagblaðanna voru í morgun undirlagðar fréttum af fundinum. Þannig hafa mörg blaðanna ýjað að því að Harry og Meghan ætli að „láta allt flakka“ í sjónvarpsviðtali, mögulega við spjallþáttamógúlinn Opruh Winfrey, verði niðurstaða viðræðna við drottninguna ekki ásættanleg. Konungsfjölskyldan ku ekki vera ánægð þann ráðahag, sem kæmi til með að „sverta orðspor“ krúnunnar.

Tom Bradby, sjónvarpsmaður og vinur hertogahjónanna, skrifaði pistil um málið í Sunday Times í gær. Bradby vann að gerð heimildarmyndar með Harry og Meghan á síðasta ári og þekkir því ágætlega til.

„Ég hef nokkuð skýra hugmynd um það sem gæti birst á skjánum í löngu, hispurslausu viðtali og ég held að það verði ekki fallegt á að líta,“ skrifar Bradby.

Hafna umfjöllun um ósætti

Ákvörðun hertogahjónanna um að slíta sig frá krúnunni á þennan hátt hefur kynt enn frekar undir orðrómi um ósætti milli bræðranna Vilhjálms og Harrys. Times greindi frá því í morgun að sambandið þeirra á milli væri afar stirt þessi misserin vegna þess að sá fyrrnefndi hefði horn í síðu Meghan.

Í sameiginlegri yfirlýsingu prinsanna segir að umfjöllun í „bresku dagblaði“ í dag um meint ósætti þeirra á milli sé beinlínis röng. Þá sé orðfæri á borð við það sem viðhaft er í umfjölluninni móðgandi og allt að því skaðlegt.

Í umfjöllun BBC um fundinn í Sandringham segir að drottningin vonist eftir niðurstöðu í mál hertogahjónanna innan nokkurra daga. Á meðal umræðuefna verði fjárhagur hjónanna, hvort þau fái að halda titlum sínum og hvaða skyldum þau þurfi áfram að sinna.


Tengdar fréttir

Megxit skekur Bretland: „Meghan fær það sem hún vill“

Fjallað er um ákvörðun hertogahjónanna af Sussex, þeirra Harry og Meghan, um að draga sig í hlé frá bresku konungsfjölskyldunni, hætta að sinna embættisskyldum og verða fjárhagslega sjálfstæð á forsíðum allra stærstu dagblaða Bretlands í dag.

Meghan farin aftur til Kanada

Hertogaynjan af Sussex, Meghan Markle, er farin aftur til Kanada til þess að vera með átta mánaða gömlum syni þeirra Harry Bretaprins, Archie.

Drottningin boðar til fundar vegna Meghan og Harry

Harry Bretaprins og Meghan Markle, hertogaynjan af Sussex, eru meðal þeirra sem Elísabet II Englandsdrottning hefur boðað til fundar á morgun til að ræða framtíðarhlutverk þeirra. Í vikunni tilkynntu hjónin um þá ákvörðun sína að þau ætli sér að fara úr framlínu bresku konungsfjölskyldunnar.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.