Enski boltinn

Ferguson: Ferdinand er tæpur

NordcPhotos/GettyImages

Sir Alex Ferguson , stjóri Manchester United, segist vera farinn að hlakka mikið til leiksins við Liverpool á sunnudaginn. Hann reiknar með að endurheimta markvörðinn Edwin van der Sar úr meiðslum en óttast að Rio Ferdinand verði ekki orðinn klár.

"Leikirnir við Liverpool eru alltaf risaleikir og spennan og andrúmsloftið í kring um þá er alltaf sérstakt. Allir leikmenn vilja spila þennan leik og það er því hætt við því að þeir sem ekki verða valdir í liðið á morgun verði vonsviknir," sagði Ferguson í samtali við Sky.

Van der Sar er nú óðum að ná sér af meiðslum sem hafa haldið honum út úr síðustu leikjum en Ferdinand er í vandræðum með bakið á sér. Louis Saha er eitthvað tæpur vegna meiðsla á læri en Nemanja Vidic verður klár þrátt fyrir að hafa fengið högg á nefið í leiknum gegn Bolton um síðustu helgi.

Ferguson lýsti líka yfir ánægju sinni með að Gary Neville væri nú óðum að ná formi eftir leik með varaliðinu. "Gary var úti um allan völl og það var gaman að sjá kappið í honum. Ég vona sannarlega að hann fari nú að ná sér að fullu," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×