Innlent

Atli: Samfylkingin ætti að snúa sér annað með ESB kröfur

Atli Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, segir að Samfylkingin eigi snúa sér til annarra flokka um stjórnarmyndun, láti hún ekki af kröfum sínum um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Hann vill þjóðstjórn undir forsæti Steingríms J. Sigfússonar nái stjórnarflokkarnir ekki saman um áframhaldandi samstarf.

Formenn og varaformenn stjórnarflokkanna komu saman til síns fyrsta fundar að loknum kosningum á heimili Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í gærdag. Að loknum þeim fundi var staðfest að Evrópumálin verða erfiðustu úrlausnarefni flokkanna og niðurstaðan í þeim efnum getur ráðið því hvort að áframhaldandi samstarfi verður eða ekki. Atli Gíslason þingmaður Vinstri grænna segir að Samfylkingin eigi að snúa sér til annarra flokka um samstarf ef hún standi hörð á evrópusambandsaðild.

Atli vill þjóðaratkvæðagreiðslu um samningsmarkmið og hvort fara eigi í aðildarviðræður áður en til greina komi að hefja viðræður. Ef flokkarnir ná ekki saman vill Atli að mynduð verði þjóðstjórn.

Ekki er víst að Atla verði af þessari ósk sinni því Framsóknarflokkur og Borgarahreyfing eru opin fyrir stjórnarmyndun með Samfylkingu þar sem Evrópusambandsaðild yrði á dagskrá.

Forsætisráðherra gengur á fund Ólafs Ragnars Grímssonar forseta íslands klukkan fjögur og gerir honum grein fyrir stöðu mála hvað varðar stjórnarmyndun. Ekki er ljóst hvað viðræður flokkanna taka langan tíma en í formannaþætti Stöðvar tvö á miðnætti kjördags sagði Jóhanna að flokkarnir tækju sér þann tíma sem þyrfti.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×