Enski boltinn

Shearer: Mikilvægasti leikurinn á ferlinum

Nordic Photos/Getty Images

Alan Shearer, knattspyrnustjóri Newcastle, segir að leikur liðsins við Portsmouth í kvöld sé mikilvægasti leikur hans og leikmanna hans til þessa á ferlinum.

Leikurinn á St. James´ Park í kvöld ræður miklu um það hvort Newcastle nær að halda sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni, en liðið er sem stendur í næstneðsta sæti úrvalsdeildarinnar. Ljóst er að Newcastle þarf í það minnsta að hirða öll níu stigin sem í boði eru á heimavelli það sem eftir lifir leiktíðar til að eiga möguleika á að bjarga sér.

"Í mínum huga er þetta mikilvægasti leikur allra leikmanna liðsins til þessa á ferli þeirra og væntanlega mikilvægasti leikur minn á ferlinum að sama skapi," sagði Shearer í samtali við Daily Mail.

"Ég hef farið þess á leit við leikmennina að þeir nái í öll stig sem í boði eru á heimavelli, gegn Portsmouth í kvöld og gegn Middlesbrough og Fulham. Nú er lag fyrir menn að gerast hetjur og gefa Newcastle von um að bjarga sér frá falli. Ég get ekki leyft mér þann munað að horfa lengra en til þessa leiks, en ef menn standast þessa pressu, geta þeir tryggt að nöfn þeirra verði í hugum fólks eftir tíu eða fimmtán ár," sagði Shearer.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×