Innlent

Hærri gjaldskrár en heimsóknum fjölgar

Komum til sérfræðilækna á landinu hefur fjölgað um 20 prósent á árunum 2006 til 2010.
Komum til sérfræðilækna á landinu hefur fjölgað um 20 prósent á árunum 2006 til 2010. Fréttablaðið/Gva
Samningsleysi Sjúkratrygginga við sérfræðilækna hefur í för með sér hærri gjöld. Fjórði hver Íslendingur frestaði nauðsynlegri læknisþjónustu árin 2006 og 2007. Finnum fyrir auknum þrýstingi, segir kynningarfulltrúi Sjúkratrygginga.

Samningsleysi sérfræðilækna við Sjúkratryggingar Íslands hefur gert það að verkum að margir læknar leggja aukið umsýslugjald á sjúklinga sína. Gjaldskrá hefur hækkað jafnt og þétt síðan í fyrra, en samningar hafa verið lausir síðan í apríl 2011.

Komum til sérfræðilækna hefur þó fjölgað mikið á síðustu árum, en árið 2005 voru komurnar um 385 þúsund en um 450 þúsund árið 2010. Læknar hafa þó haft tiltölulega frjálsar hendur í 13 mánuði til að verðleggja þjónustu sína. Ekki eru komnar tölur frá Sjúkratryggingum fyrir síðasta ár.

Heiðar Örn Arnarsson, kynningafulltrúi Sjúkratrygginga, segir erfitt að segja hversu miklar hækkanir hafi átt sér stað síðan samningar féllu úr gildi.

„Við erum að fá afar takmarkaðar upplýsingar,“ segir hann. „En við finnum fyrir þrýstingi og auðvitað er ósátt fólk að hafa samband við okkur vegna þess að það þarf að leggja út hærri upphæðir.“

Á árunum 2006 og 2007 frestaði eða felldi niður um fjórði hver Íslendingur nauðsynlegri læknisþjónustu. Misjafnt var eftir félagslegri stöðu hvers vegna fólk frestaði komu sinni til lækna. Meðal þeirra sem frestuðu læknisheimsóknum oftar en aðrir var ungt fólk sem á í fjárhagsörðugleikum. Af þeim sem töldu sig vera í miklum fjárhagsörðugleikum höfðu tæp 60 prósent frestað eða sleppt nauðsynlegri læknisþjónustu á sex mánaða tímabili. Þetta er meðal þess sem kom fram í rannsókn Rúnars Vilhjálmssonar félagsfræðings og birt var í fyrra. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að komum til sérfræðilækna hefur fjölgað mikið síðan rannsóknin var gerð.

Rúnar segir bráðnauðsynlegt að gera sambærilega rannsókn í dag til að sjá hvaða áhrif efnahagsbreytingarnar í landinu hafa á frestunina og almennt aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

„Stærsti þátturinn var fjárhagserfiðleikar. Hlutfallið hækkar mikið eftir því sem fólk er í meiri örðugleikum,“ segir Rúnar. Niðurstöðurnar séu viðvörun til stjórnvalda og það sé verulegt áhyggjuefni ef einkafjármögnun verði aukin innan heilbrigðisgeirans, meðal annars með því að hækka sjúklingagjöld enn frekar.

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×