Innlent

Eldur logaði í flutningabíl á Reykjanesbraut

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Reykjanesbraut var lokað í átt að höfuðborgarsvæðinu þegar eldur kom upp í flutningabíl við Hvassahraun nú á fjórða tímanum. Lið frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins hefur náð tökum á eldinum, að sögn varðstjóra. Ekki urðu slys á fólki en varðstjóri gerir ráð fyrir að bílstjórinn hafi verið einn bílnum.

Ætla má að einhverjar umferðartafir verði vegna brunans. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu mun slökkvistarfi ljúka innan skamms en þá á eftir að draga bílinn af vettvangi.

Þá virðist sem nokkurt tjón hafi orðið á bílnum en mynd frá vettvangi á Reykjanesbraut sýnir svartan reyk leggja frá honum og þá logar einnig töluverður eldur. Ekkert er vitað um eldsupptök á þessari stundu.

Uppfært klukkan 16:20:

Slökkvilið hefur slökkt eldinn í bílnum og lokið vinnu sinni á vettvangi. Bíllinn verður dreginn af vettvangi en varðstjóri gerði ráð fyrir að umferð hefði aftur verið hleypt á Reykjanesbraut, sem lokað var í aðra áttina á fjórða tímanum.

Reykjanesbrautinni var lokað í aðra áttina vegna brunans. Myndin er tekin á fjórða tímanum.Mynd/Aðsend



Fleiri fréttir

Sjá meira


×