Erlent

Skrifar ástar­bréf til Bret­lands og segir það alltaf vel­komið í ESB

Sylvía Hall skrifar
Frans Timmermans.
Frans Timmermans. Vísir/Getty

Frans Timmermans, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, segist vera sár yfir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu í pistli sem hann skrifar í The Guardian. Hann segir Breta þó alltaf velkomna aftur í sambandið.

Pistlinum má líka við nokkurs konar ástarbréf til Bretlands þar sem hann segir Bretland alltaf hafa verið hluta af sér, allt frá því að hann var ungur drengur.

„Nú hefurðu ákveðið að fara. Það brýtur í mér hjartað, en ég virði þá ákvörðun. Þú varst tvístígandi með það, eins og þú hefur alltaf verið tvístígandi með Evrópusambandið. Ég vildi að þú hefðir haldið þig við þá skoðun, hún þjónaði þér vel og hélt okkur í betra formi,“ skrifar Timmermans.

Sjá einnig: Brexitáætlun Boris samþykkt á þingi

Hann segir það ekki hafa verið nauðsynlegt að knýja fram slíka ákvörðun með sama hætti og raun bar vitni. Það hafi þó verið niðurstaðan og hann sjái að það sé að „særa“ Bretland.

„Af því að þessi tvö viðhorf munu alltaf vera þarna, líka þegar þú ert farið. Ferlið hefur valdið þér ónauðsynlegum skaða, og okkur öllum líka. Ég óttast það að [frekari skaði] fylgi.“

Hann segist vera miður sín að Bretland ætli sér úr sambandinu, en áætlað er að útganga Breta verði að veruleika þann 31. janúar. Hann líkir því við að fjölskyldumeðlimur sé að slíta öll tengsl við fjölskyldu sína.

„Ég finn huggun í þeirri tilhugsun að fjölskyldutengsl geta aldrei í raun rofnað. Við erum ekki að fara neitt og þér er alltaf velkomið að koma aftur.“


Tengdar fréttir

Brexitáætlun Boris samþykkt á þingi

Breskir þingmenn samþykktu í dag frumvarp Boris Johnson, forsætisráðherra, varðandi úrgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu með miklum meirihluta atkvæða.

Breskir auðjöfrar lauma sér inn um bakdyr ESB

Auðugir bakhjarlar Íhaldsflokksins í Bretlandi hafa frá þjóðaratkvæðagreiðslunni um Brexit árið 2016 sóst eftir ríkisborgararétti á Kýpur. Eyríkið er aðili að Evrópusambandinu og með því að öðlast ríkisborgararétt þar njóta þessi aðilar þeirra réttinda sem aðild býður upp á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×