Innlent

Þrír dyra­verðir slasaðir eftir að ráðist var á þá

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Þrír voru fluttir á slysadeild í nótt.
Þrír voru fluttir á slysadeild í nótt. Vísir/Vilhelm
Ýmislegt kom upp á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt en flest atvik komu upp í miðbænum samkvæmt dagbók lögreglu.

Nokkur umferðarbrot voru framin í nótt en upp úr klukkan tíu í gærkvöldi varð umferðaróhapp við Bergþórugötu í miðbænum. Tjónvaldur er grunaður um akstur undir áhrifum, akstur á móti einstefnu og hann fór ekki að tilmælum lögreglu. Hann var handtekinn stuttu eftir óhappið og var vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn máls.

Fimm atvik til viðbótar komu upp þar sem ökumenn voru grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Þá var einn ökumaður sviptur réttindum og annar grunaður um að aka sviptur ökuréttindum. Þá var ökumaður stöðvaður þegar klukkan var að ganga ellefu í Kópavogi. Ökumaður neitaði að gefa persónuupplýsingar sínar upp við lögreglu og var með hótanir. Hann var vistaður í fangageymslu í nótt.

Tilkynnt var um líkamsárás á veitingahúsi í miðbænum þegar klukkan var að ganga hálf tvö. Dyraverðir voru að vísa þremur mönnum úr húsi þegar mennirnir réðust á þá. Einn dyravörðurinn fékk ítrekuð spörk í höfuðið og var fluttur með sjúkraflutningabíl á Bráðamóttöku. Þá fékk annar dyravörður glas í höfuðið en hann var einnig fluttur á Bráðamóttöku. Þriðji dyravörðurinn er með minni áverka. Árásarmennirnir voru farnir af vettvangi þegar lögreglu bar að garði.

Þá var tilkynnt um slys á skemmtistað við Laugaveg klukkan hálf fjögur í nótt. Kona datt aftur fyrir sig af stól og rak höfuð í ofn. Talið er að hún hafi misst meðvitund í stutta stund og fékk hún sár á hnakka. Hún var flutt með sjúkrabifreið á Bráðamóttöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×