Innlent

Meintum kyn­ferðis­brota­manni ekki vísað úr dóms­sal við skýrslu­gjöf brota­þola

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur var felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur var felldur úr gildi.
Landsréttur felldi í gær úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að maður, sem kærður er fyrir kynferðisbrot gegn stúlku sem þá var sextán ára gömul, skyldi víkja úr dómssal á meðan hún gæfi skýrslu fyrir dómi.

Maðurinn er ákærður fyrir að hafa beitt stúlkuna kynferðislegu ofbeldi tvisvar sinnum. Hann hafi neytt hana til að hafa við sig munnmök á salerni gegn því að gefa henni lyfin Stesolid og Ritalin Uno.

Héraðsdómur úrskurðaði þann 20. nóvember síðastliðinn að kærði skyldi víkja úr dómssal á meðan brotaþoli gæfi skýrslu fyrir dómi en Landsréttur mat það svo að ekki væri ástæða til þess að víkja frá meginreglunni, að ákærði fengi að vera viðstaddur skýrslugjöf vitnis fyrir dómi.

Í vottorði sálfræðings stúlkunnar kemur fram að hún hafi ekki rætt atvikið beint en í samtölum hafi það komið fram að atvikið sæti í henni og væri henni íþyngjandi. Þá mætti ætla að það myndi reynast henni mjög þungbært að ræða það í dómssal, sérstaklega að meintum geranda viðstöddum, miðað við viðbrögð þolanda þegar málið hafi borið á góma.

Stúlkan er í dag átján ára gömul en hún var aðeins sextán ára þegar meint brot átti sér stað. Fram kemur í úrskurði Héraðsdóms að engin tengsl séu á milli hennar og ákærða.

Þá metur Landsréttur það svo að það liggi ekki ljóst fyrir miðað við vottorð sálfræðings hvaða rök liggi að baki því mati að nærvera varnaraðila geti orðið brotaþola sérstaklega íþyngjandi þegar hún gefur skýrslu fyrir dómi. Vottorðið sé þar að auki ódagsett og byggi það á meðferðarviðtölum sem tekin voru við brotaþola sem farið hafi fram fyrir rúmu ári.

Samkvæmt úrskurði héraðsdóms er talsverður aldursmunur á ákærða og brotaþola en eins og áður var sagt var brotaþoli 16 ára gömul þegar meint brot var framið. Brotaþoli nýtur enn umsjónar barnaverndar þrátt fyrir að vera orðin átján ára gömul þar sem hún er talin vera í mjög viðkvæmri stöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×