Innlent

Fyrsta verkfallið síðan 1978

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Hjálmar Jónsson, formaður BÍ.
Hjálmar Jónsson, formaður BÍ. Vísir/Vilhelm
„Þetta eru auðvitað blendnar tilfinningar og eitthvað sem maður hefur engan sérstakan áhuga á að fara í en blaðamenn verða auðvitað að standa með sjálfum sér. Það liggur alveg fyrir að laun þeirra eru ömurleg,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands (BÍ).

Í dag hefst fyrsta verkfall blaðamanna síðan 1978 en það nær til Fréttablaðsins, Morgunblaðsins, Sýnar og RÚV. Klukkan 10 leggja ljósmyndarar, myndatökumenn og fréttamenn á vefmiðlum þessara miðla sem eru í BÍ niður störf í fjórar klukkustundir.

Náist ekki samningar munu sömu hópar leggja niður störf næstu tvo föstudaga, fyrst í átta tíma og svo í tólf tíma. Hafi enn ekki verið samið munu blaðamenn á prentmiðlum leggja niður störf fimmtudaginn 28. nóvember.

Engir formlegir samningafundir hafa verið boðaðir milli Blaðamannafélagsins og Samtaka atvinnulífsins (SA) sem fer með samningsumboð miðlanna fjögurra. Hjálmar segist hafa átt í óformlegum samræðum við SA en ekkert hafi komið út úr þeim.

Samningur náðist í gær milli Blaðamannafélagsins og Útgáfufélags Stundarinnar sem er í aðalatriðum samhljóma þeim samningum sem hafa verið gerðir við Birtíng og Kjarnann.

Blaðamenn Vísis eru félagar í Blaðamannafélaginu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.