Erlent

Lög­reglu­maður af­henti of­beldis­manni upp­lýsingar um fórnar­lamb

Sylvía Hall skrifar
Saksóknari í málinu sagði að um algjöran trúnaðarbrest væri að ræða.
Saksóknari í málinu sagði að um algjöran trúnaðarbrest væri að ræða. Vísir/Getty
Ástralskur lögregluþjónn var í dag dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa brotist inn í gagnagrunn lögreglu og sótt upplýsingar um fórnarlamb heimilisofbeldis. Upplýsingarnar veitti hann árásarmanni konunnar og fyrrverandi kærasta, sem var jafnframt æskuvinur hans.

Í frétt BBC um málið kemur fram að atvikið átti sér stað fyrir fimm árum síðan. Lögreglumaðurinn sem um ræðir heitir Neil Punchard.

Punchard náði í upplýsingar um heimilisfang konunnar og sendi þær á manninn. Í kjölfarið sendi hann honum smáskilaboð þar sem hann sagði: „Segðu bara við hana að þú vitir hvar hún eigi heima og láttu þar við liggja. Lol.“

Í vitnaskýrslu sagðist konan hafa upplifað mikla streitu og kvíða vegna málsins og hún lifi við þjáningar á hverjum degi. Lögreglumenn eigi að vernda hana en hafi í staðinn gert hið andstæða.

„Sú staðreynd að þetta var ekkert slys, heldur vísvitandi, og þetta var útsmogið, það hefur gert þetta allt sársaukafyllra. Sama hvað ég geri, ég get ekki upplifað mig örugga.“

Málið kom fyrir dómstóla í kjölfar margra ára baráttu brotaþolans en hún leitaði fyrst til lögreglu fyrir þremur árum síðan. Atvikið átti sér stað í miðjum skilnaði hennar og árásarmannsins og hafði lögreglumaðurinn ekki áhyggjur af afleiðingum málsins því hann gæti einfaldlega „notað nafnið sitt“ og reddað manninum ef einhverjar kvartanir kæmu upp.

Punchard hafnar því að hafa vitað að um ofbeldissamband væri að ræða en saksóknari í málinu sagði að það skipti engu þar sem um algjöran trúnaðarbrest væri að ræða. Í dag er í gildi nálgunarbann og má árásarmaðurinn hvorki eiga í samskiptum við fyrrverandi eiginkonu sína né börn þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×