Erlent

Vonar að Huff­man geti gefið sér ráð eftir fangelsis­vistina

Sylvía Hall skrifar
Lori Laughlin hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu í málinu.
Lori Laughlin hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu í málinu. Vísir/Getty
Leikkonan Lori Laughlin er á meðal þeirra sem var ákærð fyrir þátttöku sína í umsvifamikilli háskólasvikamyllu í Bandaríkjunum. Á annan tug efnaðra foreldra voru ákærðir í málinu grunaðir um að hafa greitt háar fjárhæðir til þess að koma börnum sínum í eftirsótta háskóla.

Laughlin neitaði sök í málinu og samþykkti ekki samning saksóknara. Réttarhöld yfir henni hefjast á næsta ári en hún og eiginmaður hennar, Mossimo Gianulli, eru sögð hafa borgað yfir 500 þúsund Bandaríkjadala, sem samsvarar rúmlega 62 milljón íslenskra króna, til þess að koma dóttur sínum tveimur inn í svokallaða „elítuskóla“ og voru þær skráðar sem afreksíþróttamenn á umsókn þeirra til þess að auka líkurnar á inntöku.

Sjá einnig: Sephora hættir samstarfi við dóttur Lori Laughlin í kjölfar háskólasvikamyllu

Bandaríska leikkonan Felicity Huffman, sem er hvað þekktust fyrir hlutverk sitt í þáttunum Desperate Housewifes, hefur hafið afplánun á fjórtán daga fangelsisdómi sínum sem hún hlaut í september fyrir hlut sinn í málinu. Er Laughlin sögð hafa reynt að eiga í samskiptum við Huffman til þess að leita ráða og vonar að hún geti sagt sér frá reynslu sinni eftir afplánun, fari svo að hún sjálf þurfi að sæta fangelsisvist.

„Henni líður eins og örlög þeirra séu samtvinnuð núna,“ segir heimildarmaður People. Hún vilji vita hvernig fangelsisvistin sé í raun og veru svo hún geti haft einhverja hugmynd um hvað bíði hennar ef allt fer á versta veg.

Að sögn heimildarmannsins vonar Laughlin að fangelsisvistin verði Huffman ekki erfið því það gefi henni von um að það sama eigi við um sig. Ef Huffman geti komist í gegnum slíkt, geti hún það líka.

„Það er henni enn mjög mikilvægt að vera sýknuð af öllum ákærum gegn sér. Hún heldur enn fram sakleysi sínu og vonar að það komi ekki til þess. En ef hún endar á því að þurfa að afplána dóm í fangelsi, þá vill hún vita hvað hún er að fara út í.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×