Erlent

Skattskýrslur Trump skulu afhentar saksóknurum

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump hefur staðfastlega neitað að birta skattskýrslur sínar og barist gegn kröfum þess efnis með kjafti og klóm.
Trump hefur staðfastlega neitað að birta skattskýrslur sínar og barist gegn kröfum þess efnis með kjafti og klóm. AP/Evan Vucci
Alríkisdómstóll hafnaði rökum Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að hann njóti friðhelgi gegn sakamálarannsóknum og úrskurðaði að saksóknarar í New York skuli fá skattskýrslur hans og fyrirtækis hans undanfarinna átta ára afhentar. Áfrýjunardómstóll frestaði áhrifum úrskurðarins.

Saksóknarar í New York kröfðust skattskýrslna forsetans með stefnu frá endurskoðunarfyrirtækinu Mazars USA fyrir mánuði. Krafan tengist rannsókn þeirra á því hvort að Trump og fyrirtæki hans hafi brotið lög þegar þau endurgreiddu Michael Cohen, fyrrverandi lögmanni Trump, vegna þagnargreiðslna hans til klámmyndaleikkonu sem sagðist hafa átt í kynferðislegu sambandi við Trump.

Dómsmálaráðuneytið studdi forsetann í málinu sem hann höfðaði til að koma í veg fyrir að þurfa að afhenda skattskýrslurnar. Alríkisdómari hafnaði rökum þeirra um að sitjandi forseti njóti friðhelgi gegn sakamálarannsóknum og sagði þau „andstæð stjórnskipan þjóðarinnar og stjórnarskrárlegum gildum“. Forsetar, fjölskyldur þeirra og fyrirtæki væru ekki yfir lögin hafin, að því er New York Times hefur upp úr dómnum.

Lögmenn Trump höfðu einnig fært rök fyrir því að það ylli Trump „óbætanlegum skaða“ yrðu skattskýrslur hans og fyrirtækis hans gerðar opinberar.

Ólíkt fyrri Bandaríkjaforsetum hefur Trump hvorki birt skattskýrslur sínar né slitið tengsl við fyrirtæki sín. Í kosningabaráttunni bar hann fyrir sig að yfirvöld væru að endurskoða skattskýrslur hans þrátt fyrir að yfirvöld segðu það ekki standa í vegi þess að hann birtir skýrslurnar.

Trump nýtur áfram ágóða af rekstri fyrirtækjanna sem tveir synir hans stýra. Demókratar hafa höfðað önnur dómsmál til að fá upplýsingar um hvort að forsetinn brjóti mögulega lög sem banna honum að taka við gjöfum eða sporslum frá erlendum þjóðarleiðtogum með viðskiptum fyrirtækja í hans eigu við erlend ríki.

Uppfært 15:06 Áfrýjunardómstóll féllst á kröfu lögmanna Trump um að fresta réttaráhrifum úrskurðarins á meðan áfrýjun þeirra er tekin fyrir, að sögn AP-fréttastofunnar.


Tengdar fréttir

Trump höfðar mál vegna skatt­skýrsl­u­lög­gjaf­ar

Donald Trump og Repúblikanaflokkurinn höfða nú mál gegn Kaliforníuríki eftir að löggjöf sem kveður á um að forsetaframbjóðendur þurfi að birta skattskýrslur sínar, vilji þeir taka þátt í forvali forsetakosninga í ríkinu, var samþykkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×