Innlent

Sól­veig Anna segir á­lagið á bráða­mót­tökunni vera skýrar af­leiðingar ný­frjáls­hyggju

Sylvía Hall skrifar
Sólveig Anna gefur lítið fyrir tal pólitíkusa um eina þjóð. Hún segir stjórnvöld leyfa fámennum hópi að græða.
Sólveig Anna gefur lítið fyrir tal pólitíkusa um eina þjóð. Hún segir stjórnvöld leyfa fámennum hópi að græða. Vísir/Vilhelm
Pistill hjúkrunarfræðingsins Elínar Tryggvadóttur hefur vakið mikla athygli í dag þar sem hún ræðir ástandið á bráðamóttöku Landspítalans undanfarnar tvær vikur. Að hennar sögn náði álagið nýjum hæðum föstudaginn 13. september þegar 41 sjúklingur var lagður inn.

Á móttökudeildinni eru aðeins 36 rúm fyrir hendi og því var lítið sem ekkert svigrúm fyrir starfsmenn að taka á móti nýjum sjúklingum sem þörfnuðust aðstoðar. Því mætti í raun segja að bráðamóttaka suðvesturhornsins hafi einfaldlega verið óstarfhæf síðastliðinn föstudag.

Sjá einnig: Hjúkrunarfræðingur lýsir hörmungardegi á spítalanum föstudaginn þrettánda

Á meðal þeirra sem hafa sýnt pistli Elínar athygli er Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. Í færslu á Facebook-síðu sinni beinir hún orðum sínum að „pólitísku valdastéttinni sem leyfir því að gerast að 300 manneskjur skipti á milli sín 46 milljörðum“ og gefur lítið fyrir tal stjórnvalda um eina samheldna þjóð.

„Það kostar að þykjast ekki geta gert neitt til að endurúthluta réttmætri eign samfélagsins, öllum þessum endalausu milljörðum sem forstjórar, fjárfestar, bankastjórar og útgerðarmenn gefa sjálfum sér. Það kostar að lifa eftir brauðmolahagfræðinni, það kostar að skipta kökunni ekki jafnt, það kostar að taka ekki af skarið, það kostar að bíða eftir því að auðstéttin kaupi sig endanlega fram fyrir allar raðirnar og allt álagið og smíði handa sjálfri sér heilbrigðiskerfi, skólakerfi, umönnunarkerfi hinna ríku,“ skrifar Sólveig Anna.

Hún segir þetta vera skýrt merki um umönnunarkrísu, sem á ensku útleggst sem „crisis of care“. Hugtakið snýr að þeirri hugmynd að samfélög meti umönnunarstörf ekki til verðleika heldur séu álitin vera sjálfgefin og ókeypis. Þetta sé bein afleiðing „nýfrjálshyggjunnar og arðránsins“ eins og Sólveig Anna sjálf kemst að orði.

„Það kostar að hafa Bjarna Ben sem fjármálaráðherra. Það kostar að leyfa græðginni að ráða för þegar samfélagsleg gildi eru ákvörðuð og það er alltaf “venjulega” fólkið sem ber þann kostnað. Alls staðar og alltaf.“


Tengdar fréttir

Föstu­dagurinn þrettándi á Bráða­mót­tökunni

Föstudagurinn þrettándi september var erfiður dagur í sögu Landspítala. Starfsfólk Bráðamóttöku veit að þjóðsögur um föstudaginn þrettánda eru sannar og þegar dagurinn ber upp á fullu tungli er voðinn vís á vaktinni. Ekkert okkar grunaði að nýtt og ömurlegt met yrði slegið þennan dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×