Innlent

„Við getum ekki brugðist við með því að reyna að lifa eins og í sænskri hippa­kommúnu“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að eitt það besta sem Íslendingar hafa gert gagnvart loftslagsmálum væri að reisa álver.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að eitt það besta sem Íslendingar hafa gert gagnvart loftslagsmálum væri að reisa álver. vísir/vilhelm
Sérstök umræða um loftslagsmál og skuldbindingar Íslands á alþjóðavettvangi fór fram á Alþingi í dag.

Málshefjandi var Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og sat Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fyrir svörum en auk þeirra tóku fjórtán þingmenn þátt í umræðunni.

Það má segja að ræður Miðflokksmannanna tveggja, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bergþórs Ólasonar, hafi vakið furðu þingheims en Sigmundur sagði það til dæmis ekki æskilegt að beita hræðsluáróðri í umræðunni um loftslagsmál.

„Það er til dæmis ekki æskilegt, og í rauninni bara á margan hátt skaðlegt, að viðhafa fyrst og fremst hræðsluáróður um umhverfismál og loftslagsmál, að börn komi skelfingu lostin heim úr skólanum og telji að heimurinn sé að farast. Við verðum að nálgast þessi mál, þetta stóra viðfangsefni, á forsendum staðreynda, með tilliti til vísinda og með tilliti til samhengis,“ sagði Sigmundur og spurði svo hvað væri eitt það besta sem Íslendingar hefðu gert gagnvart loftslagsmálum í heiminum.

Svaraði hann því sjálfur og sagði það vera byggingu álvera hér á landi sem notast við endurnýjanlega og umhverfisvæna orkugjafa.

„[…] í stað þess að vera byggð í Kína þar sem losunin hefði verið tíföld á við það sem sams konar álver losar á Íslandi enda orkukerfið þar keyrt áfram af gegndarlausum kolabruna,“ sagði Sigmundur.

Umræðuna má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.





Sagði Sigmund Davíð skera sig úr í umræðunni

Þá setti hann spurningamerki við boðaðan urðunarskatt og spurði hvort ekki ætti frekar að leggja áherslu á aðra valkosti:

„[…] til að mynda að hér verði reistar hátæknisorpbrennslur og þær brennslur notaðar til að framleiða orku? Heimilissorp er umhverfisvænasta eldsneytið til orkuframleiðslu. Við getum ekki brugðist við með því að reyna að lifa eins og í sænskri hippakommúnu. Við verðum að leyfa vísindunum að leysa þetta fyrir okkur því að það eru þau sem hafa skilað mestum árangri gagnvart mengun til að mynda fram að þessu. Á þeim árangri þarf að byggja og umfram allt á staðreyndum, samhengi og leitinni að lausnum sem raunverulega virka.“

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, beindi orðum sínum að Sigmundi Davíð við lok ræðu sinnar. Sagði hann þingmanninn skera sig dálítið úr í umræðunni þar sem samhljómur væri á meðal þeirra sem tekið hefðu til máls.

„Það var ekki annað á honum að skilja en að það besta sem við gerðum í baráttunni gegn loftslagsvánni væri að koma hér upp nýjum álverum. Hefur háttvirtur þingmaður aldrei heyrt um landsmarkmið sem hvert land setur sér líka? Þessi 20. aldar hugsun og 20. aldar rök um álverin í Kína er að verða dálítið þreytt en það er gott að það er einangruð hugsun og einangruð skoðun hér á þingi,“ sagði Kolbeinn.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins. vísir/Vilhelm

„Skiptir auðvitað miklu máli hvort skurðurinn er nýr eða gamall“

Bergþór velti því síðan upp hvort þær aðgerðir sem stjórnvöld væru að grípa til skiluðu í raun árangri. Tók hann tvö dæmi, annars vegar um kolefnisgjald og hins vegar um endurheimt votlendis. Sagði hann að í báðum þessum tilfellum treystu stjórnvöld sér ekki til þess að svara því hvaða árangri aðgerðirnar skili.

„Í fyrsta lagi hefur verið lagt á kolefnisgjald og það hefur verið hækkað ítrekað. Ítrekað hefur hæstvirtur umhverfisráðherra verið spurður og fleiri ráðherrar raunar hvort menn viti hver árangurinn er af þessari gjaldtöku. Staðreyndin er sú að menn treysta sér ekki til að svara því. Og nú á að fara að moka ofan í skurði um landið þvert og endilangt án þess að menn viti raunverulega hvaða áhrif það hefur. Það skiptir auðvitað miklu máli hvort skurðurinn er nýr eða gamall, í hvers lags jarðvegi hann er og þar fram eftir götunum, en áfram er keyrð lausnin án þess að menn séu með fullnægjandi vitneskju um það hver raunverulegur árangur verður,“ sagði Bergþór.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.vísir/vilhelm

Sá sig knúinn til að svara ræðum Miðflokksmanna

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagðist verða að svara ræðum Miðflokksmanna og orðræðunni sem almennt kæmi úr þeirri átt en hann ætlaði að fjalla um annað í ræðu sinni.

„Háttvirtur þingmaður Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði áðan að við gætum ekki leyst þetta með því að láta eins og við værum í einhverri sænskri hippakommúnu. Ég get frætt háttvirtan þingmann og alla sem eru hans megin í pólitík um að það eru vísindin, staðreyndir og samhengi hlutanna sem sýna okkur fram á loftslagsvána og af hvaða völdum hún er. Hún er af margvíslegum völdum, þar á meðal mikið til af völdum manneskja sem losa út í andrúmsloftið, til dæmis koltvísýring, metan og fleira. Það eru vísindin sem segja okkur þetta. Það er engar sænskar hippakommúnur sem gera það,“ sagði Helgi Hrafn.

Þá sagði hann að sér þætti það frekar pirrandi að hlusta á þingmennina tala um vísindin eins og það væru ekki vísindin sem gerðu það að verkum að fólk væri að takast á við loftslagsvandann:

„[…] eins og vísindin segi okkur að halda aðeins aftur af okkur, passa okkur á gjöldunum, eins og það séu vísindin og staðreyndirnar sem gefi til kynna að við eigum að passa okkur á að hafa ekki of hátt gjald á hinu eða þessu. Eins og það séu vísindin sem segja okkur að það eigi að breyta þessu í eitthvert stríð milli landsbyggðar og höfuðborgar. Virðulegur forseti. Slæmur brandari. Góður væri hann ef hann væri fyndinn en hann er því miður fyrst og fremst sorglegur. Það sést á þessum málflutningi háttvirtra þingmanna Miðflokksins sér í lagi. Það er ódýrt, einfalt og þægilegt að stilla sér einfaldlega upp á móti öllu sem gæti verið óþægilegt og verður óþægilegt við að takast á við þennan vanda. Talandi um pólitískan rétttrúnað, fyrr má nú vera, virðulegi forseti.“

Forsætisráðherra ræddi svo einnig um vísindin í seinni ræðu sinni og sagði aðgerðirnar skila árangri.

„Allt sem við gerum byggir á vísindum, til dæmis þegar litið er til endurheimtar votlendis, sem mun skipta verulegu máli til að draga úr losun, og þar setjum við okkur líka mælanleg markmið um að hún verði 50% meiri árið 2030 með nýjum aðgerðum sem verður ráðist í næstu fjögur árin miðað við núverandi umboð. Hér er ekki bara verið að setja niður orð á blað eins og sumir háttvirtir þingmenn gefa til kynna. Það er verið að fjármagna aðgerðir. Við erum búin að setja mælanleg markmið og þau munu skila árangri,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×