Erlent

Fundu leifar forsögulegrar risamörgæsar á stærð við mann

Kjartan Kjartansson skrifar
Teikning af stærð risamörgæsarinnar borið saman við manneskju.
Teikning af stærð risamörgæsarinnar borið saman við manneskju. AP/Canterbury-safnið
Fornleifafræðingar fundu leifar risamörgæsar á Nýja-Sjálandi sem er talinn hafa synt um hafið á suðurhveli jarðar fyrir um 66 milljónum ára. Mörgæsin er talin hafa verið á stærð við mann, um 160 sentímetrar á hæð og allt að áttatíu kíló að þyngd.Steingerð bein úr risamörgæsinni sem var nefnd Crassvallia waiparensis fundust í Norður-Canterbury í fyrra. Þau benda til þess að hún hafi lifað á paleósentímabilinu fyrir 66 til 56 milljónum ára. Á þeim tíma var Nýja-Sjáland enn tengt Ástralíu sem var jafnframt landtengd Suðurskautslandinu. Risamörgæsin er sögð líkjast annarri forsögulegri mörgæs sem leifar hafa fundist um á Suðurskautslandinu, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.Talið er að mörgæsategundin hafi orðið svo stór eftir að stór sjávarskriðdýr hurfu úr höfum jarðar um svipað leyti og risaeðlurnar dóu út. Mörgæsirnar hafi svamlað um höfin á suðurhveli jarðar í um þrjátíu milljónir ára. Keisaramörgæsin, stærsta mörgæsategund nútímans, verður um 120 sentímetrar á hæð.Paul Scofield, safnstjóri Canterbury-safnsins á Nýja-Sjálandi, segir að aðstæður í hafinu hafi verið sérstaklega hagstæðar fyrir mörgæsirnar á þeim tíma.„Sjávarhitinn í kringum Nýja-Sjáland var fullkominn á þessum tíma, um 25°C borið saman við þær 8°C sem hann er núna,“ segir hann.Ekki liggur fyrir hvers vegna risamörgæsin hvarf af sjónarsviðinu. Vísindamenn leiða því líkum að hún hafi orðið undir í samkeppninni við önnur sjávardýr. Eftir að skriðdýrin hurfu úr hafinu átti mörgæsin sér enga stóra keppninauta fyrr en tannhvalir og selir komu til sögunnar mörgum milljónum ára síðar.

Doktor Paul Scofield, safnstjóri við Canterbury-safnið, með bein úr risamörgæsinni við hlið uppstoppaðrar keisaramörgæsar, stærstu núlifandi mörgæsategundinni.AP/Mark Baker

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.