Erlent

Yfir níu þúsund gert að flýja á­fram­haldandi skógar­elda á Kanarí­eyjum

Eiður Þór Árnason skrifar
Eldarnir sjást víða á eyjunni.
Eldarnir sjást víða á eyjunni. Vísir/AP
Yfir níu þúsund manns hefur verið gert að yfirgefa stórt svæði á Kanaríeyjum vegna áframhaldandi skógarelda á Gran Canaria, samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum á svæðinu.

Erfiðlega hefur reynst að ná stjórn á eldinum sem kviknaði seint á laugardag og hafa slökkviliðsmenn lýst honum sem „skrímsli“ sem mjög erfitt sé að eiga við. Mikill hiti hefur verið á eyjunni undanfarið og skóglendi þurrt en slökkviliðsmenn hafa glímt við skógarelda á tveimur stöðum á eyjunni undanfarna daga.

Yfirvöld á eyjunum telja að um sex þúsund hektara svæði hafi orðið eldinum að bráð á einungis tveimur sólarhringum.

Sjá einnig: Mágkonan barði allt að utan til að vara við eldinum

Greint hefur verið frá því að eldtungurnar hafi náð allt að 50 metra hæð í dag jafnt sem viðbragðsaðilar glímdu við óhagstæða vindátt og hita sem náði 36 gráðum. Reiknað er með því að hitinn haldi áfram að aukast og nái 38 gráðum síðar í vikunni.

Ángel Víctor Torres, forseti Kanaríeyja, sagði að 1.100 slökkviliðsmenn berjist nú við eldinn og noti til þess sextán þyrlur og flugvélar. Talið er líklegt að upptök skógareldana séu af mannavöldum, en að öðru leyti er óljóst hver upptökin eru.


Tengdar fréttir

Mágkonan barði allt að utan til að vara við eldunum

Íslensk kona sem búsett er á eyjunni Gran Canaria á Kanaríeyjum, þar sem miklir gróðureldar hafa geisað síðustu daga, neyddist til að yfirgefa sumarbústað sinn og eiginmanns síns í nótt vegna eldanna.

Enn kviknar skógareldur á Kanarí

Álag hefur aukist á slökkviliðsmenn á Kanarí-eyjum eftir að þriðji skógareldurinn á rúmri viku á kviknaði á annarri fjölmennustu eyju Kanarí, Gran Canaria.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×