Sport

Ellefu tekjuhæstu íþróttakonur heims koma allar úr tennis

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fjórða árið í röð er Williams tekjuhæsta íþróttakona heims.
Fjórða árið í röð er Williams tekjuhæsta íþróttakona heims. vísir/getty
Serena Williams er tekjuhæsta íþróttakona heims samkvæmt úttekt Forbes.

Ellefu tekjuhæstu íþróttakonur heims á síðasta ári eru allar tennisleikarar.

Þetta er fjórða árið í röð sem Williams er tekjuhæsta íþróttakona heims. Á síðasta ári þénaði hún 29,2 milljónir Bandaríkjadala. Williams er eina konan sem komst á lista Forbes yfir tekjuhæsta íþróttafólk heims á síðasta ári.

Naomi Osaka, sem vann Williams í úrslitaleik Opna bandaríska meistaramótsins í fyrra, er í 2. sæti listans yfir tekjuhæstu íþróttakonur heims.

Osaka hefur klifið metorðastigann hratt og landað stórum styrktarsamningnum eftir sigur á tveimur risamótum í röð.

Tekjur Osaka jukust mikið milli ára.vísir/getty
Tekjur hennar utan vallar fóru úr 1,6 milljónum Bandaríkjadala í 16 milljónir á milli ára. Á næsta ári verða tekjur Osaka væntanlega enn hærri því hún er búinn að skrifa undir stóran samning við Nike.

Alls voru tekjur Osaka á síðasta ári 24,3 milljónir Bandaríkjadala. Hún er aðeins fjórða konan sem rýfur 20 milljóna Bandaríkjadala múrinn síðan Forbes byrjaði að taka saman tekjur íþróttafólks. Hinar eru Williams, Maria Sharapova og Li Na, allt tennisleikarar.

Williams og Osaka eru langtekjuhæstu íþróttakonur heims. Angelique Kerber er í 3. sæti listans en tekjur hennar á síðasta ári voru 11,8 milljónir Bandaríkjadala.

Alex Morgan, einn af fyrirliðum bandarísku heimsmeistaranna í fótbolta.vísir/getty
Alex Morgan, skærasta stjarna bandaríska fótboltalandsliðsins, er efst á listanum af þeim sem eru ekki tennisleikarar.

Auk Morgans eru indverska badmintonkonan PV Sindhu og taílenski kylfingurinn Ariya Jutanugarn á listanum yfir 15 tekjuhæstu íþróttakonur heims.

Fimmtán tekjuhæstu íþróttakonur heims á síðasta ári:

1. Serena Williams, tennis - 29,2 milljónir Bandaríkjadala

2. Naomi Osaka, tennis - 24,3 m

3. Angelique Kerber, tennis - 11,8 m

4. Simona Halep, tennis - 10,2 m

5. Sloane Stephens, tennis - 9,6 m

6. Caroline Wozniacki, tennis - 7,5 m

7. Maria Sharapova, tennis - 7 m

8. Karolina Pliskova, tennis - 6,3 m

9. Elina Svitolina, tennis - 6,1 m

10.-11. Venus Williams, tennis - 5,9 m

10.-11. Garbine Muguruza, tennis - 5,9 m

12. Alex Morgan, fótbolti - 5,8 m

13.-14. PV Sindhu, badminton - 5,5 m

13.-14. Madison Keys, tennis - 5,5 m

15. Ariya Jutanugarn, golf - 5,3 m


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×