Í tilkynningu segir að fyrst hafi verið slökkt á hálfum kerskála 3 og síðar ákveðið að slökkva einnig á hinum helmingnum. Vonir höfðu staðið til þess á föstudag að ástandið færi að batna í skálanum en svo fór ekki.
Rannveig Rist forstjóri ISAL færir starfsfólki þakkir fyrir að bregðast hratt og vel við í þeim aðstæðum sem upp komu nú um helgina. Enn sé jafnframt slökkt á sextán kerjum í kerskálum 1 og 2 en lögð verði áhersla á að koma þeim á „beinu brautina“, líkt og segir í tilkynningunni. 160 ker eru í hverjum kerskála í álverinu.
Enginn verði sendur heim
Bjarni Már Gylfason upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi segir í samtali við fréttastofu að ákvörðunin hafi verið tekin til að bregðast við óstöðugleika í rekstri skálans.
Það séu aðallega sviptingar á mörkuðum sem valdi þessum hráefnisbreytingum.
„Það hafa verið mjög óvenjulegar aðstæður á súrálsmörkuðum í heiminum undanfarið ár. Það geisar ákveðið viðskiptastríð á stóra sviðinu. Svo var mjög stór súrálsverksmiðja í Brasilíu sem lokaði í fyrra þannig að það var skortur á súráli. Menn hafa þurft að bregðast við með öðrum hætti en verið hefur og við erum að finna að einhverju leyti fyrir því.“
Bjarni segir ekki hægt að segja til um það á þessari stundu hversu lengi kerskálinn verði lokaður. Skálinn stendur undir um þriðjungi af framleiðslu álversins en Bjarni segir þó að stöðvunin muni ekki hafa áhrif á starfsfólk, enn sé unnið á svæðinu og ekki þurfi að grípa til þess að senda fólk heim.
Var einhvern tímann hætta á ferðum?
„Nei. Þetta er ákvörðun sem er tekin til að bregðast við og í raun og veru koma í veg fyrir að slíkar aðstæður skapist.“
Fréttin hefur verið uppfærð með viðbrögðum frá upplýsingafulltrúa Rio Tinto á Íslandi.