Sport

Stórmeistari í skák í símanum á klósettinu: Svindlið skekur skákheiminn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Myndin af Igors Rausis í símanum.
Myndin af Igors Rausis í símanum.
Skákheimurinn hristist þessa dagana eftir að komust upp um svindl hjá lettneskum stórmeistara í skák. Þetta var ekki bara einhver skákmaður heldur einn af þeim sextíu bestu í heimi.

Hinn 58 ára gamli Igors Rausis sást nefnilega vera í símanum á klósettinu. Seinna fannst líka síminn sem hann notaði.  

Alþjóða skáksambandið gaf út yfirlýsingu í framhaldinu þar sem sagt var að sambandið hefði úrskurðað skákmann á mótinu í keppnisbann.

Igors Rausis viðurkenndi brot sín og segist núna vera búinn að leggja taflmennina á hilluna.  

Fólk hafði lengi grunað Igors Rausis um svindl og það var þess vegna sem einhver fylgdi honum eftir inn á klósettið og tók síðan mynd af því þegar hann tók upp símann. Chess.com sagði einnig frá því að sími hafi fundist á klósettinu sem Rausis notaði þegar hann var að keppa á Opna Strasbourg mótinu í skák.





Igors Rausis hefur verið stórmeistari í skák frá árinu 1992 og er með 2686 elóstig. Hann var síðast í 53. sæti á heimslistanum. Rausis var líka langelstur í hópi bestu skákmanna heims en hann er sjö árum eldri en sá næsti inn á heimslistanum.

Emil Sutovsky, framkvæmdastjóri Alþjóða skáksambandsins, sagði að sambandið hafi lengi grunað Igors Rausis um svindl og að þetta hafi jafnframt aðeins verið fyrsta skrefið af mörgum í baráttunni gegn svindli í skákheiminum.

Það sem þótti grunsamlegt við frammistöðu Igors Rausis við taflborðið var að hann hafði hækkað sig um 200 elóstig á síðustu árum eftir að hafa verið fastur í 2500 elóstigum í áratug eða meira.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×