Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Víkingur - Fylkir 1-1 | Víkingar upp úr fallsæti

Guðlaugur Valgeirsson skrifar
Víkingar eru komnir upp úr fallsæti.
Víkingar eru komnir upp úr fallsæti. vísir/bára
Vikingur og Fylkir gerðu í kvöld 1-1 jafntefli í skemmtilegum leik á Víkingsvelli. Leikurinn var liður í 9. umferðinni sem lauk í kvöld.

Víkingar fengu fyrsta færi leiksins en það kom strax á 4. mínútu þegar Erlingur Agnarsson komst einn í gegn eftir frábæra sendingu frá Örvari Eggertssyni. Erlingur ætlaði að vera ískaldur og vippa yfir Stefán Loga Magnússon nýjan markvörð Fylkis en hann setti of mikinn kraft í vippuna og boltinn fór yfir markið! Klúður hjá Erlingi.

Það voru gestirnir sem skoruðu fyrsta markið og það kom á 17. mínútu. Þá tók Kolbeinn Birgir Finnsson góða hornspyrnu sem rataði á kollinn á Ásgeir Eyþórsson. Hann skallaði boltann að marki sem endaði með því að boltinn fór til Geoffrey Castillion sem átti ekki í neinum vandræðum með að setja boltann í netið! 1-0 fyrir gestina.

Heimamenn voru þó ekki lengi að jafna metin en það tók rétt rúmlega átta mínútur. Þá áttu þeir frábæra sókn sem endaði á fyrirgjöf frá Ágústi Eðvald Hlynssyni frá hægri inn í teiginn og þar mætti Guðmundur Andri Tryggvason á ferðinni og setti boltann í slánna og inn! Frábært mark og staðan orðin jöfn!

Eftir þetta skiptust liðin á færum en þó áttu gestirnir hættulegri færi! Castillion komst einn á móti Þórði Ingasyni á 38. mínútu en Þórður varði meistaralega frá honum! Valdimar Þór Ingimundarson tók frákastið en setti boltann í stöngina! Staðan áfram 1-1 þegar dómarinn flautaði til hálfleiks.

Bæði lið fengu færi í síðari hálfleiknum til að klára leikinn en það tókst ekki! Leiknum lauk þó ekki rólega því Erlingur Agnarsson fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt þegar hann stoppaði skyndisókn Fylkismanna. Réttur dómur og Erlingur á leiðinni í leikbann. Lokatölur 1-1 og líklega sanngjörn niðurstaða þrátt fyrir að bæði lið geti verið svekkt.

Af hverju varð jafntefli?

Bæði lið buðu upp á bráðfjörugan fyrri hálfleik og bæði lið hefðu getað skorað fleiri mörk. En í síðari hálfleiknum datt leikurinn niður og eftir að Víkingar misstu mann af velli virtust þeir sætta sig við stigið. Fylkismenn sóttu ekki nógu stíft að heimamönnum og því fór sem fór.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá heimamönnum var Þórður Ingason frábær í markinu! Klárlega maður leiksins en hann bjargaði nokkrum sinnum mjög vel fyrir sína menn. Guðmundur Andri Tryggvason var ávallt hættulegur þegar hann fékk boltann.

Hjá gestunum var Ólafur Ingi Skúlason flottur á miðjunni en annars var þetta fín liðsframmistaða hjá Fylki.

Hvað gekk illa?

Færanýtingin hjá báðum liðum hefði mátt vera betri en það er líklega aðalástæðan af hverju liðin skildu jöfn. 

Kwame Quee átti ágætis leik en það sést að það vantar aðeins uppá sjálfstraustið. Hann var með nánast opið mark en ákvað að gefa boltann til hliðar sem varð til þess að liðið missti boltann. 

Hvað gerist næst?

Víkingar eiga heimaleik gegn Íslandsmeisturum Vals næstkomandi sunnudag á meðan Fylkir fær ÍBV í heimsókn, einnig á sunnudaginn.

Arnar sagði Víkinga og Fylkismenn hafa boðið upp á góðan leik í kvöld.vísir/vilhelm
Arnar: Finnst ekki eins og við séum í fallbaráttu

Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings var alls ekkert svekktur með aðeins eitt stig á heimavelli gegn Fylki í kvöld. Hann sagði að jafnteflið hefði líklega verið sanngjarnt.

„Mér fannst þetta bara flottur leikur í kvöld. Sérstaklega í fyrri hálfleik þá var þetta bara svona end to end þar sem bæði lið fengu fullt af færum og ég held að jafnteflið hafi bara verið sanngjarnt þegar uppi var staðið.“

Hann segir það ekki beint áhyggjuefni að hafa bara fengið eitt stig úr seinustu tveimur leikjum eftir að hafa spilað mjög vel í báðum leikjum.

„Við fengum færi til að klára leikinn í kvöld og fleiri en eitt en við tökum ekkert af Fylki, þeir mættu hérna í kvöld og spiluðu vel og þeir fengu færi líka. Við erum búnir að gera mörg jafntefli og þau telja lítið en eitt stig er svo sem ásættanlegt þegar við missum mann útaf með rautt spjald,“ sagði Arnar.

„Fyrir mér var þetta hörkuleikur í fyrri hálfleikur þar sem bæði lið fengum færi en í síðari hálfleik datt þetta niður sem er skiljanlegt en samt lítið á milli þessara liða og sigurinn hefði getað dottið báðum megin.“

Arnar sagði að þetta hafi verið klárt seinna gult spjald á Erling Agnarsson en hann fékk rautt spjald á 87. mínútu.

„Seinna var alltaf spjald, ég sá ekki fyrra nógu vel því miður. En hann er að stoppa sókn og dómarinn getur ekkert annað gert. Pjúra gult að mínu mati.“

Hann segir að honum finnist ekki eins og liðið sé í fallbaráttu þrátt fyrir að það sé raunin eins og staðan er í dag.

„Eins asnalegt og það hljómar þá finnst mér ekki eins og liðið sé í einhverri fallbaráttu. Við erum bara flott lið og við viljum spila skemmtilegan fótbolta. Áhorfendur eru að skemmta sér vel en auðvitað veit ég að við þurfum að fá stig en við þurfum að vera klókari,“ sagði Arnar.

„Það eru kostir og gallar við að vera með unga menn á miðjunni og frammi. Sérð bara muninn hjá okkur og Fylki, það er töluvert meiri reynsla á miðjunni og sókninni hjá Fylki en menn læra þetta fljótt.“

Helgi sagði sína menn hafa átt að vera yfir í hálfleik.vísir/vilhelm
Helgi: Bæði lið svekkt að hafa ekki fengið meira

Helgi Sigurðsson þjálfari Fylkis var nokkuð sáttur með eitt stig gegn Víking í kvöld en sagði þó að auðvitað vilji hann alltaf fá þrjú stig.

„Ég er nokkuð sáttur með stigið í kvöld en auðvitað vill maður alltaf fá þrjú stig. Við fengum færin til þess og þá sérstaklega í fyrri hálfleik en þetta var jafn leikur og ég held að bæði lið séu svekkt að hafa ekki fengið meira út úr þessu í kvöld en við tökum stigið.“

Hann var svekktur að liðið skyldi ekki hafa forystuna að loknum fyrri hálfleik en liðið fékk nokkur góð færi í fyrri hálfleiknum.

„Auðvitað er maður svekktur þegar við klúðrum færum en stærstu færin sem við fengum voru í fyrri hálfleiknum og við hefðum mátt vera yfir í hálfleik,“ sagði Helgi.

„Frábær fyrri hálfleikur hjá báðum liðum, mjög góðir spilkaflar hjá báðum liðum en svo í seinni hálfleik datt þetta of mikið niður og var of mikið stopp. Smá pípukonsert í seinni hálfleik og flæðið dó svolítið út og þetta var mun meiri barátta.“

Helgi sagði að lokum að þetta væri alls ekki tvö töpuð stig í baráttunni um Evrópusæti.

„Menn mega taka þessu hvernig sem þeir vilja. Þetta var bara jafntefli og 1 stig á bæði lið og þegar maður horfir yfir leikinn þá held ég að það sé nokkuð sanngjarnt þó að maður vilji auðvitað meira,“ sagði Helgi að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira