Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: ÍA - Fylkir 2-0 │Skagamenn upp í þriðja sætið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Tryggvi Hrafn skoraði fyrra mark ÍA.
Tryggvi Hrafn skoraði fyrra mark ÍA. vísir/daníel
ÍA tók þriðja sæti Pepsi Max deildar karla með tveggja marka sigri á Fylki á Norðurálsvellinum á Akranesi í 12. umferð deildarinnar í dag.

Leikurinn byrjaði af miklum krafti og átti Daði Ólafsson hörkuskot að marki ÍA sem fór rétt yfir. Það átti hins vegar ekki eftir að setja tóninn fyrir leikinn. ÍA kom boltanum í marknetið á tólftu mínútu en var dæmd rangstaða og markið taldi ekki.

Mínútu síðar komst ÍA í aðra skyndisókn og í þetta skiptið komu þeir boltanum löglega í markið. Hörður Ingi Gunnarsson átti góðan sprett á vinstri kantinum og átti sendinguna fyrir markið. Þar var Tryggvi Hrafn Haraldsson mættur og potaði boltanum yfir línuna.

Það sem eftir var af fyrri hálfleik gerðist ekki margt markvert. Bæði lið áttu möguleika á að koma marki í leikinn og það var mikil barátta, en almennileg færi voru af skornum skammti.

Skagamenn komu miklu sterkari út úr leikhléinu og fengu nokkur föst leikatriði snemma í hálfleiknum. Árbæingar náðu varla að leika boltanum á milli manna á köflum í seinni hálfleik og voru ekki sérlega líklegir til þess að jafna leikinn.

Viktor Jónsson gerði svo út um leikinn fyrir ÍA með marki á 80. mínútu. Fylkir reyndi að sækja, en tíminn sem eftir var dugði þeim ekki og lokaniðurstaðan 2-0 sigur ÍA.

Af hverju vann ÍA?

Eitt það versta sem gat gerst fyrir leikinn, svona fyrir hinn hlutlausa áhorfanda, var að fá mark snemma frá Skagamönnum. Vörn gulra, sem var svo þétt í upphafi móts, fann taktinn aftur eftir að hafa lekið aðeins í síðustu leikjum. Við það að ná markinu inn snemma gátu heimamenn þétt raðirnar, lokað vel á allar sóknaraðgerðir Fylkis og tekið svo þau sóknarfæri sem gáfust án þess að þurfa að leita sér að marki.

Að því sögðu þá hefur sóknarleikur Fylkis gengið betur í sumar en hann gerði í dag. Þeim gekk illa að skila af sér sendingum og jafnvel þó varnarleikur ÍA hefði enn ekki verið kominn almennilega í lag er ekki víst að Fylkir hefði skorað.

Hverjir stóðu upp úr?

Varnarlína ÍA var ótrúlega þétt í dag. Það er erfitt að velja einn fram yfir annan en Óttar Bjarni Guðmundsson steig varla feilspor og fær hann titilinn maður leiksins í dag. Tryggvi Hrafn Haraldsson átti mjög góða spretti þegar ÍA fékk tækifæri fram á við og hann skilar alltaf af sér hættulegum hornspyrnum. Þá nýtti Albert Hafsteinsson tækifærið mjög vel, hann var í byrjunarliðinu í stað Stefáns Teits Þórðarsonar sem er í banni, og skilaði mjög flottum leik á miðjunni.

Hjá Fylki var það helst Valdimar Þór Ingimundarson sem var líklegur til þess að gera eitthvað fram á við. Hann náði oftast að halda boltanum ágætlega og var sprækasti maður Árbæinga í dag. Kolbeinn Birgir Finnsson átti þokkalegan leik í vængbakverðinum, sérstaklega í fyrri hálfleik.

Hvað gekk illa?

Báðum liðum gekk illa að skapa sér almennileg færi og í fljótu bragði eru aðeins tvö dauðafæri sem koma upp í hugann úr leiknum, bæði fékk Viktor Jónsson undir lok leiks og mark hans kom úr öðru þeirra.

Annars eru Skagamenn líklega þokkalega sáttir með sinn sóknarleik þar sem þeir þurftu ekki að sækja af fullu gasi og skapa helling af færum. Fylkismenn þurfa hins vegar að skoða sinn gang og komast að því hvað þeir áttu að gera betur til þess að skora mark í þessum leik.

Hvað gerist næst?

Næstu leikir liðanna eru um næstu helgi. Þá leika þau lið sem ekki eru í Evrópu, bæði þessi lið þar á meðal, leiki sína úr níundu umferð deildarinnar. ÍA sækir Grindavík heim á mánudagskvöld, á sama tíma rölta Fylkismenn yfir Elliðaárdalinn og mæta Víkingum í Víkinni.

Jóhannes Karl Guðjónsson.Vísir/Daníel
Jói Kalli: Erum komnir aftur á beinu brautina

„Mikil vinna sem fór í þessa frammistöðu hjá okkur í dag. Við þurftum að eiga við mikið af háum og löngum boltum, Fylkismenn dældu þeim fram á okkur. Við réðum vel við það og gáfum sárafá færi á okkur,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, eftir leikinn.

„Liðsheildin fyrst og fremst skilaði þessu en líka frábær einstaklingsgæði í fyrstu mönnum hjá okkur. Það er svona það sem skilur á milli.“

Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði fyrsta mark leiksins þegar rétt tíu mínútur voru liðnar af leiknum sem gaf heimamönnum andrúm.

„Það er alltaf gott að skora, við náðum forystunni snemma og náðum að vera þéttir. Við vorum ekkert að taka of mikið af sénsum, strákarnir sýndu mikinn aga í skipulaginu og héldu því rosalega vel.“

„Fylkir er með fullt af góðum fótboltamönnum þannig að við þurftum að hlaupa mikið.“

Eftir frábæra byrjun á mótinu var gengi ÍA ekki nógu gott í síðustu leikjum og Skagamenn höfðu ekki unnið síðustu fjóra þegar kom að leiknum í dag.

„Við vorum búnir að svara þessari spurningu oft með þessa leiki sem við töpuðum, auðvitað geta alltaf fótboltaleikir tapast, en það sem við vildum fyrst og fremst spá í var eigin frammistaða og vinnuframlagið hjá leikmönnunum. Við erum komnir aftur á beinu brautina hvað það varðar og það mun alltaf skila okkur fleiri sigrum heldur en ósigrum,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson.

Helgi SigurðssonVísir/Bára
Helgi: Veit ekki hvort það var að við vorum allt í einu komnir á þurrt gras en boltinn gekk of hægt

„Mér fannst vanta ákefð og meiri græðgi í mína menn í dag,“ sagði Helgi Sigurðsson, þjálfari Fylkis. „Við vorum bara því miður ekki nógu ákveðnir í okkar sóknarleik eins og við höfum verið í undanförnum leikjum.“

„Við fundum engin svör við varnarleik Skagamannanna. Vorum svo sem alveg jafn góðir hérna úti á vellinum, en þeir voru betri á þeim svæðum sem skipta máli.“

Það hefur aðeins verið rætt um óstöðugleika í leik Fylkis, þeir náðu í tvo góða sigra en fengu svo skell á móti Stjörnunni, komu til baka á móti KA og náðu í sigur í síðasta leik en mæta svo frekar daufir til leiks hér. Hvað þarf Helgi að gera til þess að ná upp stöðugleika í leik sinna manna?

„Maður reynir að rýna í allt en það er óstöðugleiki hjá flestum liðum í þessari deild, þetta er jöfn deild og það geta allir unnið alla.“

„Við þurfum bara að halda áfram. Það er hægt að fara í volæði og halda að allt sé orðið slæmt en það er það ekki. Auðvitað þurfum við að spila aðeins betur en við gerðum í dag.“

„Boltinn gekk of hægt á milli manna, fyrirgjafir ekki nógu góðar inn í teig, léleg hlaup inn í teiginn og við sköpum bara lítið í þessum leik. Gerðum ekki nóg til þess að eiga eitthvað meira skilið.“

„Ég veit ekki hvort það var að við vorum allt í einu komnir á þurrt gras, frábær völlur og frábærar aðstæður, allt til alls, en eitthvað var þetta að fara illa í okkar menn og boltinn gekk of hægt,“ sagði Helgi Sigurðsson.

Óttar Bjarni GuðmundssonVísir/Daníel
Óttar Bjarni: Kominn tími til að leita í kjarnann

„Þéttur varnarleikur allan tímann,“ sagði Óttar Bjarni Guðmundsson hafa skilað ÍA sigrinum. „Ég held að þeir hafi ekki skapað sér neitt marktækifæri og þéttur varnarleikur í 90 mínútur plús.“

„Varnarleikurinn hjá öllum, frá markmanni til fremsta manns, við vorum að verjast eins og menn. Farnir að gera það aftur eftir að hafa verið „sloppy“ í þrjá, fjóra leiki. Það var kominn tími til að leita aðeins í kjarnann.“

Óttar var sammála því að markið í upphafi leiks hafi gefið Skagamönnum ákveðna ró.

„Það var gott að ná því snemma. Fylkir er með hörku gott lið, við þurftum að draga þá aðeins framar, og það var mjög gott að sjá svo Viktor klára þetta þegar það voru tíu mínútur eftir.“

Það var kominn tími fyrir Skagamenn að ná sér í sigur aftur eftir langa bið og tilefnið gat varla verið betra, enda Írskir dagar á Akranesi um helgina.

„Bæjarhátíð á Skaganum, og ég held við hefðum ekki getað beðið um betra tilefni,“ sagði Óttar Bjarni Guðmundsson.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira