Lífið

Ring of Gyges semur tónlist fyrir sjálfa sig

Sandra Guðrún Guðmundsdóttir skrifar
Strákarnir í Ring of Gyges gera mikið af tilraunum í lagasmíði FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR
Strákarnir í Ring of Gyges gera mikið af tilraunum í lagasmíði FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR
Meðlimir proggmetal hljómsveitarinnar Ring of Gyges eru nýkomnir úr viku "einangrun“ á Breiðdalsvík þar sem þeir voru að semja efni á nýja plötu. Hljómsveitin hefur verið starfandi frá árinu 2014 og stefnir að því að gefa út sína þriðju plötu á næsta ári. Hljómsveitina skipa þeir: Helgi Jónsson, söngvari og gítarleikari, Guðjón Sveinsson einnig söngvari og gítarleikari, Þorsteinn Ýmir Ásgeirsson bassaleikari, Gísli Þór Ingólfsson á píanói, hljómborði og synthum og Einar Merlin Cortes á trommum.

Strákarnir þekktust ekkert þegar hljómsveitin var stofnuð fyrir fimm árum. „Ég var búinn að vera að vinna í demóum í tölvunni heima hjá mér. Ég fann svo hóp á Facebook sem heitir hljóðfæraleikarar óskast. Ég setti inn auglýsingu þar og Guðjón og Einar svöruðu,“ segir Helgi um upphaf Ring of Gyges.

Gísli bættist við ári seinna og Steini bassaleikari hefur verið með hljómsveitinni í um það bil tvö ár og samstarfið gengur vel að sögn strákanna.

Helgi segist hafa vitað í upphafi að hann hafi viljað búa til proggmetal. „Sem var ástæðan fyrir að við Einar slógum til. Við fundum að við vorum með svipaðan tónlistarsmekk,“ skýtur Guðjón inn.

Strákarnir útskýra að progg­metall sé svipaður og progressive rock, oft kallað progg eða bara framsækið rokk á íslensku, nema proggmetallinn er harðari. „Progg­rokk rekur uppruna sinn til 70‘s hljómsveita eins og Pink Floyd, Genesis, Yes og þessara hljómsveita. Síðan hafa hljómsveitir eins og Dream Theater, Mastodon og Symphony X blandað svolitlu af þungarokki inn í þetta,“ segir Guðjón.

„Svo eru í dag alls konar ný bönd sem taka þetta enn þá lengra og við erum undir áhrifum frá þeirri senu,“ bætir hann við.

Hljómsveitin Ring of Gyges hefur verið starfandi frá árinu 2014. Meðlimir sveitarinnar hafa nýlokið við að semja efni á sína þriðju plötu FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Gera mikið af tilraunum

Tónlist sveitarinnar einkennist af löngum lögum og flóknum samsetningum. „ Ef við viljum gera eitthvað þá gerum við það og hvernig hlustendur taka því, það er undir þeim komið,“ segir Helgi.

Strákarnir segja að það séu ekki margar íslenskar hljómsveitir sem falla undir proggrokk stefnuna. Þeir nefna að þekktasta hljómsveitin sé kannski hljómsveitin Trúbrot. Af nýrri böndum nefna þeir Agent Fresco og Future Figment sem dæmi.

Það sem heillar hljómsveitarmeðlimi mest við proggmetal er hvað stefnan er laus við allar takmarkanir. „Það má gera nokkurn veginn hvað sem er undir stefnunni og það þarf ekki að aðlagast einhverjum stöðlum eða venjum líkt og í öðrum tónlistarstefnum. Við gerum mikið af tilraunum með rythma og blöndum saman áhrifum úr ólíklegustu áttum og reynum að finna út hvað virkar. Þetta er mjög gefandi og krefjandi stefna fyrir bæði tónlistarmenn og áheyrendur,“ segja þeir.

Næst á dagskrá hjá strákunum er að taka upp efnið, sem þeir sömdu á Breiðdalsvík, og spila á tónleikum í Gautaborg í sumar til að fylgja eftir síðustu plötu sinni Beyond the Night Sky.

Þar sem Helgi býr í Stokkhólmi og Guðjón hefur einnig verið í námi þar undanfarið hafa þeir ekki spilað mikið saman nýlega. Þeir fóru þó í stuttan Norðurlandatúr í janúar og spiluðu í Svíþjóð, Noregi og Danmörku. En það var einmitt í þessum Norðurlandatúr sem strákunum bauðst að spila í Gautaborg í sumar.

„Þetta er hátíð í miðri Gautaborg í skógi sem heitir Slottskogen. Hátíðin heitir Slottskogen goes progressive og verður haldin í tuttugasta sinn í sumar þann 17. ágúst,“ segir Guðjón.

„Þegar við vorum að bóka gigg fyrir Norðurlandatúrinn í janúar þá sendum við póst hingað og þangað. Meðal annars til samtakanna sem standa að þessari hátíð. Við vissum ekkert um hátíðina, við vildum bara bóka tónleika í Gautaborg. En það gekk ekki upp. Við ákváðum þess vegna bara að taka eins dags frí í Gautaborg á meðan á túrnum stóð, en akkúrat þann dag hafði maður frá samtökunum samband við okkur og vildi hitta okkur. Við fórum á fund með honum sem gekk svo vel að við vorum bókaðir.”

Hljómsveitin eyddi viku á Breiðdalsvík til að fá næði til að semja FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Næsta plata þyngri

Strákarnir segjast vonast til að geta nýtt ferðina og bókað fleiri tónleika í Svíþjóð eða löndunum í kring á svipuðum tíma. Annars er stefnan bara að klára nýju plötuna. Þeim hefur gengið vel að semja og segjast komnir með meira en nóg efni. Nú er bara að velja úr.

„Við Helgi áttum mikið af demóum og hinir strákarnir voru með eitthvað efni líka. Við vildum komast eitthvert í burtu og einangra okkur til að sjóða saman efnið,“ segir Guðjón um ástæðu þess að þeir fóru til Breiðdalsvíkur.

Þeir segja aðdáendur sveitarinnar mega búast við að nýja platan verði þyngri en þær fyrri. „Það var mikið af 70’s áhrifum á fyrri plötunum en núna erum við frekar undir áhrifum frá nútímanum. Við vorum með helling af gestahljóðfæraleikurum á síðustu plötu eins og strengjakvartett og blástursleikara. En nú eru þetta bara við.”

Strákarnir segja að markmiðið með tónlistinni þeirra sé ekki heimsfrægð. „Þá værum við líklega að spila annars konar tónlist,“ segja þeir hlæjandi. „Það sem einkennir okkur er að við semjum fyrir sjálfa okkur en ekki aðra, en ef aðrir hafa gaman af því þá er það frábært,“ segir Guðjón.

„Þið megið vera spennt fyrir næstu plötu,“ segir Helgi og bætir við í gamni: „Því hún verður helluð!“

Þeir sem hafa áhuga á að hlusta á Ring of Gyges geta fundið plöturnar þeirra á öllum helstu streymisveitum, eins og Spotify. Strákarnir selja plöturnar einnig í gegnum vefsíðuna sína ringofgygesband.com.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×