Erlent

Farage og félagar á feikimiklu flugi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Farage gengur afar vel í kosningabaráttunni.
Farage gengur afar vel í kosningabaráttunni. Nordicphotos/AFP
Þótt Nigel Farage, hávær Brexitliði og leiðtogi hins nýja Brexitflokks (e. Brexit Party), hafi lent í því leiðinlega atviki á þriðjudag að ósáttur maður hellti mjólkurhristingi yfir hann er hann væntanlega nokkuð sáttur þessa dagana. Flokkur hans mælist langstærstur í Bretlandi í aðdraganda Evrópuþings­kosninga sem fara fram í dag.

Könnun sem Opinium birti í gær sýnir Brexitflokkinn með 38 prósenta fylgi. Það er meira en Íhaldsflokkurinn, sem er með tólf prósent, og Verkamannaflokkurinn, með sautján prósent, samanlagt. Sömuleiðis er það vel meira en fylgi fyrri flokks Farage, UKIP, fékk í síðustu kosningum, 28 prósent.

Samkvæmt greiningu Europe Elects stefnir í að Brexitflokkurinn, sem líkt og nafnið gefur til kynna er andvígur aðild Breta að ESB og þrýstir á harða útgöngu, verði sá stærsti á Evrópuþinginu eftir kosningarnar, með 28 sæti. Næst kæmi ítalski flokkurinn Bandalagið, einnig andvígur ESB, og svo Evrópusinnaði flokkurinn Kristilegir demókratar frá Þýskalandi.

Bretar þurfa, eins og áður hefur komið fram, að taka þátt í Evrópuþingskosningunum þótt þeir séu á útleið úr sambandinu. Ástæðan er sú að útgöngu hefur verið frestað fram í október.

Framboð Brexitflokksins er ekki hugsað til þess að hafa áhrif á stefnu Evrópusambandsins og ofboðslega lítið er að finna um stefnu flokksins fyrir kosningarnar á heimasíðu hans. Markmið bæði flokksins og væntanlegra kjósenda hans er öllu heldur, samkvæmt greiningu og viðtölum sem birtust á vef The New York Times, að senda skýr skilaboð um óánægju með það hvernig ríkisstjórn Theresu May og Íhaldsflokksins hefur haldið á spilunum í útgöngumálinu.

Farage hefur til að mynda sagt í kosningabaráttunni að með sigri sé hægt að koma möguleikanum á samningslausri útgöngu aftur á borðið. Þeim möguleika, líkt og reyndar öllum öðrum hingað til, hefur breska þingið hafnað.




Tengdar fréttir

Af hverju kasta mótmælendur mjólkurhristingum í Farage og félaga?

Lögreglan í Edinborg í Skotlandi hefur farið fram á það við skyndibitakeðjuna McDonalds að hætta sölu á mjólkurhristingum í borginni á laugardaginn til þess að koma í veg fyrir að stjórnmálamaðurinn Nigel Farage verði aftur fyrir barðinu á mjólkurhristingsárás.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×