Sport

Semenya: Aðeins Guð getur komið í veg fyrir að ég hlaupi

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Caster Semenya
Caster Semenya vísir/getty

Caster Semenya sagði enga manneskju geta komið í veg fyrir að hún hlaupi eftir að hún sigraði 800 metra hlaup á Demantamóti í Doha.

Mótið í Doha var það síðasta sem Semenya má taka þátt í á vegum alþjóðafrjálsíþróttasambandsins IAAF áður en nýjar reglur sem takmarka testósterónmagn í blóði kvenhlaupara taka gildi.

Semenya er ein af þeim sem eru með óvanalega mikið magn testósteróns og því hefur reglan áhrif á hana. Hún mun þurfa að taka inn lyf sem halda testósteróninu niðri til þess að mega keppa í 800 metra hlaupi.

Semenya mótmælti reglunni fyrir dómi en í vikunni úrskurðaði íþróttadómstóllinn að reglan fengi að standa.

„Aðgerðir segja meira en orð,“ sagði Semenya við BBC að loknu hlaupinu.

„Þegar þú ert sigurvegari þá skilar þú þínu.“

„En nú er þetta í höndum Guðs. Guð ákvað líf mitt og hann mun enda líf mitt. Guð ákvað feril minn og guð mun enda feril minn. Enginn maður, eða önnur manneskja, getur komið í veg fyrir að ég hlaupi.“

„Hvernig á ég að hætta þegar ég er 28 ára? Mér finnst ég enn ung og full af orku, ég á tíu ár inni í frjálsum íþróttum.“

„Ég veit ekki hvernig ég geri það, en ég mun vera hér áfram. Ég fer ekki neitt.“

Þegar blaðamenn spurðu Semenya hvort hún ætlaði að taka lyfin sem hleypa henni í 800 metra hlaupið var svarið einfalt: „Nei.“

Semenya er Ólympíumeistari, heimsmeistari og Samveldisleikameistari í 800 metra hlaupi kvenna. Hún þarf þó að breyta um vegalengd ef hún ætlar ekki að taka inn lyf, því regla IAAF á bara við um hlaup í vegalengdum frá 400 metrum til einnar mílu. 


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.