Erlent

Tugir þúsunda mislingasmita í Evrópu á árinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Eina vörnin gegn mislingum er bólusetning. Sjúkdómurinn getur valdið blindu, heyrnarleysi, heilaskaða eða jafnvel dauða.
Eina vörnin gegn mislingum er bólusetning. Sjúkdómurinn getur valdið blindu, heyrnarleysi, heilaskaða eða jafnvel dauða. Vísir/EPA

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hvetur stjórnvöld í Evrópu til þess að tryggja að viðkvæmir hópar fái bólusetningar við mislingum. Tölur stofnunarinnar sýna að fleiri en 34.000 manns smituðust af mislingum í Evrópu fyrstu tvo mánuði ársins, flestir þeirra í Úkraínu.

Af þeim tugum þúsunda sem smituðust í 42 löndum sem WHO skilgreinir sem Evrópusvæðið voru 25.000 í Úkraínu. Af þeim sem smituðust létust þrettán af völdu mislinga í Úkraínu, Rúmeníu og Albaníu, að sögn Reuters-fréttastofunnar. WHO varar við því að faraldurinn geti haldið áfram að breiða úr sér.

„Nýta ætti hvert tækifæri til að bólusetja börn, ungmenni og fullorðna sem eru næmir fyrir smiti,“ segir í yfirlýsingu WHO.

Mislingafaraldrar hafa geisað víða um heim að undanförnu, þar á meðal í Bandaríkjunum, á Filippseyjum og í Taílandi. Ástæðan er meðal annars hópar óbólusettra einstaklinga.

Í skýrslu barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna sem kom út í síðasta mánuði var áætlað að fleiri en tuttugu milljónir barna hefðu misst af bólusetningum við mislingum á hverju ári undanfarin átta ár. Það gæti lagt grundvöllinn að skæðum faröldrum í framtíðinni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.