Fótbolti

Vill að úrræðagóði boltastrákurinn á Anfield fái miða á úrslitaleikinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexander-Arnold og boltastrákurinn sem var svo fljótur að hugsa.
Alexander-Arnold og boltastrákurinn sem var svo fljótur að hugsa. mynd/stöð 2 sport
Þær voru margar hetjurnar í 4-0 sigri Liverpool á Barcelona í seinni leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í gær.

Meðal þeirra er boltastrákurinn sem var fljótur að koma boltanum á Trent Alexander-Arnold í aðdraganda fjórða marks Liverpool.

Fjölmargir stuðningsmenn Liverpool þökkuðu stráknum fyrir skjót viðbrögð á samfélagsmiðlum. Hann var snöggur að koma boltanum á Alexander-Arnold þegar Liverpool fékk hornspyrnu á 79. mínútu. Hann var einnig fljótur að koma öðrum bolta, sem fór inn á völlinn, út af svo Liverpool gæti framkvæmt hornspyrnuna.

Alexander-Arnold, sem var boltastrákur á Anfield fyrir ekki svo löngu, var snöggur að taka hornspyrnuna og setti boltann á Divock Origi sem skoraði með góðu skoti rétt fyrir utan markteiginn. Markið tryggði Liverpool sæti í úrslitaleik Meistaradeildarinnar annað árið í röð.





Greame Souness, fyrrverandi fyrirliði og knattspyrnustjóri Liverpool, var einn þeirra sem hrósaði boltastráknum. Skotinn kallaði m.a. eftir því að strákurinn fengi tvo miða á úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Madríd og ársmiða á Anfield fyrir framlag sitt í leiknum gegn Barcelona í gær.



Souness varð þrisvar sinnum Evrópumeistari með Liverpool sem leikmaður (1978, 1981 og 1984). Liðið hefur alls fimm sinnum orðið Evrópumeistari og á möguleika á að bæta sjötta titlinum í safnið 1. júní næstkomandi. Úrslitaleikurinn fer fram á Wanda Metropolatino, heimavelli Atlético Madrid.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×