Í gær bárust fréttir af því að hópur unglingspilta réðist á dreng af erlendum uppruna fyrir utan verslunarkjarna í Grafarvogi. Drenginn lokkuðu þeir til sín í gegnum samskiptaforritið Snapchat. Sjónarvottur af atvikinu, sem sagðist hafa rætt við drenginn á staðnum, sagði hópinn hafa kallað hann skítugan útlending og sagt honum að sleikja skóna sína. Þegar hann neitaði var ráðist á hann.
Eyrún Eyþórsdóttir, aðjúnkt í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri, telur mál sem þessi heyra undir hatursglæpi.
„Miðað viðþað sem að hefur átt sér stað varðandi haturstjáningu í samfélaginu og þá tölfræði sem við erum að sjá frá honum norðurlöndunum til dæmis. Þá held ég aðþað sé nánast hægt að fullyrða að hatursglæpum fer fjölgandi hérlendis,“ segir hún.
Aðeins tuttugu prósent mála á borð lögreglu
Hún bendir á að árið 2018 voru 250 hatursglæpir í Osló. Norska lögreglan telji þó að aðeins 20% haturglæpa komi inn á borð til þeirra. Á árunum 2016 til 2018 komu 50 hatursglæpir inn á borð lögreglunnar hér á landi.Miðað við að 600 þúsund íbúar séu í Osló og 350 þúsund íbúar hér landi. Þá segi tölfræðin okkur að haturglæpir séu líklega nokkuð faldir á Íslandi og það sé tvennt sem gæti spilað þar inn í
„Annars vegar að lögreglukerfið sem við notumst við gerir ekki grein fyrir eða tilgreinir ekki sérstaklega hatursglæpi. Þeir eru ekki sérmerktir. Það vantar kannski að setja inn í kerfið þar sem hægt er að haka við hatursglæpi. Jafnframt haka við ásetninginn og á hverju hann byggist. Þannig að það sé hægt að draga út betri tölfræði. Svo er það hitt, þetta er kannski nýtt viðfangefni á Íslandi. Það skortir enn mikla þekkingu innan lögreglunnar hvað er þaðí glæpum sem gerir glæp að hatursglæp,“ segir hún.