Erlent

Lögreglan í Kýpur gagnrýnd fyrir aðgerðarleysi vegna fjöldamorða

Samúel Karl Ólason skrifar
Kafarar leita að líki ungrar stúlku í stöðuvatni nærri Nicosia, höfuðborg Kýpur.
Kafarar leita að líki ungrar stúlku í stöðuvatni nærri Nicosia, höfuðborg Kýpur. AP/Petros Karadjias
Lögreglan í Kýpur stendur frammi fyrir harðri gagnrýni vegna meðferðar lögregluþjóna á tilkynningum um týndar erlendar verkakonur þar í landi. Búið er að handtaka fyrrverandi hermann sem hefur játað að hafa myrt fimm konur og tvær ungar stúlkur.

Stjórnarandstaðan á Kýpur hefur kallað eftir því að Dómsmálaráðherra landsins og yfirmaður lögreglunnar segi af sér.

Málið hefur vakið mikinn óhugur í Kýpur þar sem fjöldamorð af þessu tagi þykja einstaklega sjaldgæf. Rannsakendur frá Bretlandi, sem sérhæfa sig í fjöldamorðum, munu hjálpa til við rannsókn málsins.



Lík þriggja kvenna hafa fundist.

Talið er að tvær af konunum sem búið er að finna hafi verið frá Filippseyjum og hurfu þær í maí og í ágúst í fyrra. Önnur þeirra, Marry Rose Riburcio, átti sex ára dóttur sem hvarf á sama tíma en lík hennar hefur ekki fundist. Samkvæmt Reuters fréttaveitunni gaf maðurinn upp staðsetningu þriðja líksins sem fannst og sagði hann þá konu hafa verið annaðhvort indverska eða frá Nepal.



Stjórnarandstöðuþingmaðurinn Irene Charalambides sagði Reuters að dómstólar Kýpur muni dæma manninn fyrir morðin. Afskiptaleysi yfirvalda þurfi þó að rannsaka. Ekkert hafi verið aðhafst þegar hvörf kvennanna voru tilkynnt og því þurfi dómsmálaráðherrann og yfirmaður lögreglunnar að segja af sér.

Í heildina eru 80 mannshvörf óleyst á Kýpur og ná þau aftur til 1990. Lögreglan hefur lýst því yfir að rannsókn muni fara fram á öllum mögulegum verklagsgöllum þeirra vegna hvarfanna og hefur sérstök nefnd verið stofnuð til þess.

Hermaðurinn fyrrverandi er 35 ára gamall og hefur nafn hans ekki verið opinberað og er það samkvæmt lögum í Kýpur, þar sem hann hefur ekki verið ákærður enn. Hann fannst í síðustu viku þegar lögregluþjónar fóru yfir netskilaboð Tiburcio og sáu skilaboð þeirra á milli. Hin konan sem var frá Filippseyjum hét Arian Palanas Lozano en lík hennar fannst í sömu námugöngum og lík Tiburcio.

Lögreglan leitar einnig Livia Florentina Bunea, frá Rúmeníu, og átta ára dóttur hennar, Alena Natalia Bunea. Þær hurfu í september 2016. Þá er einnig leitað að Maricar Valtez Arquiola sem hvarf í desember 2017.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×