Innlent

Ráðherra lítur fjarvistir grunnskólabarna vegna ferðalaga alvarlegum augum

Birgir Olgeirsson skrifar
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Vísir/Vilhelm
Niðurstöður könnunar Velferðarvaktarinnar um skólasókn í grunnskólum verður tekin til umfjöllunar í stýrihóp Stjórnarráðsins í málefnum barna. Könnunin bendir til þess að um þúsund grunnskólanemendur á Íslandi glími við skólaforðun, eða 2,2% nemenda. Könnunin var lögð fyrir skólastjóra í 172 grunnskólum landsins nú í janúar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu en í henni fagnar Lilja Alfreðsdóttir ráðherra þeim áhuga og umræðu sem nú er um skólamál hér á landi og inntaki þeirra tillagna Velferðarvaktarinnar sem fylgja niðurstöðunum.

„Markmið okkar er að styðja sem best við skólasamfélagið og þar viljum við að öllum líði vel og nái árangri. Sú áhersla er meðal annars eitt leiðarstefja nýrrar menntastefnu sem nú er í mótun – árangur nemenda grundvallast á áhuga þeirra og vellíðan. Skólaforðun þarf að nálgast úr ólíkum áttum og vinna gegn henni í nánu samstarfi við skólasamfélagið, sveitarfélögin og önnur ráðuneyti. Þar er vilji til góðra verka, enda hefur þessi ríkisstjórn sett velferðarmál barna og ungmenna í forgang,“ er haft eftir Lilju í tilkynningunni.

Telja heimildir foreldra of rúmar

Niðurstöður könnunarinnar sem kynntar voru nýverið benda einnig til þess að leyfisóskum foreldra vegna grunnskólanema hér á landi hafi fjölgað umtalsvert en rúmur helmingur skólastjórnenda svarar því til að leyfisbeiðnum vegna ferðalaga hafi fjölgað mikið á síðustu árum. Þá kemur fram að meirihluti skólastjórnenda líti svo á að heimildir foreldrar til að fá leyfi fyrir börn sín séu of rúmar.

„Ég lít það mjög alvarlegum augum að slíkar fjarvistir komi niður á námi nemenda líkt og könnunin gefur vísbendingar um. Að mínu mati þurfum við að ræða þessa þróun og samfélagið í heild sinni þarf að taka hana til sín. Við þurfum ákveðna viðhorfsbreytingu gagnvart mikilvægu hlutverki skólanna og hvernig við sem samfélag metum menntun og störf kennara að verðleikum. Þar skiptir góð skólamenning lykilmáli og að gott samstarf, traust og virðing sé milli heimila og skólasamfélagsins,“ er haft eftir ráðherra.Leyfi frá skólavist eiga að heyra til undantekninga

Þegar er hafin vinna innan ráðuneytisins við að skoða kafla aðalnámsskrár grunnskóla þar sem fjallað er um undanþágur frá skólavist. Hér á landi er skólaskylda í grunnskólum sem hefur í för með sér að allar fjarvistir frá námi eru undanþágur. Skólastjórnendur setja sínar reglur með hliðsjón af því, frí og ferðalög sem kalla á leyfi frá skólavist eiga að heyra til undantekninga og þá er mikilvægt að náminu sé einnig sinnt af ábyrgð þegar barnið er tekið úr skóla.

„Við höfum til skoðunar í ráðuneytinu hvort einhverjar leiðir séu færar til þess að mæta þeirri ósk skólastjórnenda að stjórnvöld setji skýrari viðmið um undanþágur frá skólasókn og skyldunámi. Þar horfum við til dæmis til nágrannalanda okkar þar sem slík viðmið eru í mörgu tilfellum strangari en hér,“ segir mennta- og menningarmálaráðherra. „Markmiðið er að nemendur nái árangri í sínu námi. Samfélagsgerð okkar er flóknari en áður og það gerir kröfu á okkur öll um sveigjanleika og lausnir en þær verða alltaf að vera með hagsmuni nemendanna að leiðarljósi.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.