Tíska og hönnun

„Mikil gróska og kraftur er í faginu“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Kristín Eva segir að kraftur sé í faginu.
Kristín Eva segir að kraftur sé í faginu. Ljósmynd/Magnús Elvar Jónsson
Alls voru 370 verk innsend til FÍT-verðlaun­anna 2019. Innsend verk í keppnina hafa aldrei verið fleiri en verðlaun­in verða af­hent við hátíðlega athöfn í Tjarnarbíói miðvikudaginn 27. mars. Öll verðlaunuð og viðurkennd verk verða til sýnis í Hafnarhúsinu í kringum HönnunarMars.

„Tilnefningum fjölgar töluvert á milli ára og ljóst að mikil gróska og kraftur er í faginu,“ segir Kristín Eva Ólafsdóttir, formaður Félags íslenskra teiknara.

„Keppnin nýtur sívaxandi vinsælda og virðingar meðal hönnuða og félagsmanna FÍT, enda skipta tilnefningarnar máli því öll tilnefnd verkefni öðlast þátttökurétt í Evrópuverðlunum fagfélega ADCE (Art Directors Club of Europe).“

Til­nefnt er í 21 flokki og ná þeir yfir helstu und­ir­flokka graf­ískr­ar hönn­un­ar. Má þar nefna skjágrafík, vef­hönn­un, prent­verk, hönn­un aug­lýs­inga og myndlýsingar. Að auki eru veitt sérstök verðlaun til þess verks sem þótti skara fram úr á meðal allra verðlaunaðra verka. Formenn dómnefnda í ár voru Arnar Ólafsson (skjáhönnun), Atli Hilmarsson (mörkun), Hildur Siguðardóttir (prent) og Hjörvar Harðarsson (auglýsingar).

Hönnunarmars

Félag íslenskra teiknara stendur fyrir veglegri samsýningu á HönnunarMars sem sýnd verður í porti Listasafns Reykjavíkur-Hafnarhúsi, þriðja árið í röð og hefur viðburðurinn verið einn sá mest sótti yfir hátíðina undanfarin ár.

Viðburðurinn mark­ar upp­haf Hönn­un­ar­Mars sem verður hald­inn 28. til 31. mars. Becky Forsythe verður listrænn stjórnandi sýningar FÍT 2019 í Hafnarhúsinu en hún starfar sem sýningarstjóri og rithöfundur.

Félag íslenskra teiknara er félagsskapur grafískra hönnuða og myndhöfunda á Íslandi. Aðalmarkmið FÍT er að efla starfsstéttina, kynna hana út á við og auka samstöðu félagsmanna. Formaður FÍT er Kristín Eva Ólafsdóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×