Sport

Jose Aldo berst einn af síðustu bardögum sínum í kvöld

Pétur Marinó Jónsson skrifar
Jose Aldo hress á blaðamannafundi í vikunni.
Jose Aldo hress á blaðamannafundi í vikunni. Vísir/Getty

Brasilíska goðsögnin Jose Aldo ætlar að hætta á þessu ári. Aldo á þrjá bardaga eftir á samningi sínum og á erfiðan bardaga í kvöld.

UFC er með bardagakvöld í Fortaleza í Brasilíu í kvöld þar sem fjölmargir áhugaverðir bardagar eru á dagskrá. Þar á meðal er viðureign Jose Aldo og Renato Moicano.

Hinn 32 ára gamli Jose Aldo hefur lengi sagt að hann ætli sér ekki að vera langt fram á aldur í MMA. Fyrr á ferlinum sagðist Aldo ætla að hætta þrítugur en upphaflega planið var að hætta sem ríkjandi meistari. Aldo hefur þegar tapað tvisvar fyrir ríkjandi fjaðurvigtarmeistara, Max Holloway, og hefur í raun engan áhuga á að berjast um titilinn lengur.

Samningar meistara endurnýjast sjálfkrafa en Aldo vill klára þessa þrjá bardaga sem hann á eftir og segja þetta gott. Aldo hefur alltaf sagt að hann vilji ekki enda eins og svo margar goðsagnir sem berjast langt fram á aldur og eru skugginn af sjálfum sér.

Á meðan Aldo er ekkert að hugsa um titilinn er Renato Moicano mögulega einum sigri frá titilbardaga. Aldo ætlar samt ekkert að gefa eftir og stefnir á að klára Moicano.

Þrátt fyrir að Aldo sé ein stærsta MMA stjarnan í Brasilíu er hann ekki í aðalbardaga kvöldsins. Þeir Raphael Assuncao og Marlon Moraes eru í aðalbardaganum en sigurvegarinn í kvöld fær sennilega næsta titilbardaga í bantamvigt.

Bardagakvöldið er afar spennandi en auk fyrrnefndra bardaga mætir Demian Maia hinum bandaríska Lyman Good. Sex bardagar eru á dagskrá í kvöld en bardagakvöldið verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í nótt og hefst útsending kl. 1.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.