Sport

Stuðningsmenn Saints í mál við NFL-deildina

Þessi stuðningsmaður Saints fær engan meistarahring í ár.
Þessi stuðningsmaður Saints fær engan meistarahring í ár. vísir/getty
Stuðningsmenn NFL-liðsins New Orleans Saints ætla ekki að sætta sig við ósanngjarnt tap sinna manna um síðustu helgi í undanúrslitum deildarinnar.

Þá klikkuðu dómarar leiksins á því að dæma augljóst víti sem hefði getað hjálpað Saints að klára leikinn. Ekkert var dæmt og Rams vann leikinn í framlengingu. Stór skuggi hvílir á sigri Rams enda skelfileg frammistaða hjá dómurunum.

Stuðningsmenn Saints eru farnir í mál við deildina og vilja að síðustu 109 sekúndur leiksins verði spilaðar aftur. Aðrir stuðningsmenn hafa keypt auglýsingar á skiltum í Atlanta, þar sem Super Bowl fer fram, til þess að minna á „svindlið“ og ríkisstjóri Louisiana skrifaði einnig bréf þar sem Roger Goodell, yfirmanni NFL-deildarinnar, eru ekki vandaðar kveðjurnar. Það er allt brjálað.

Hinn grjótharði Matt Bowers á bílasölur í Atlanta og hefur keypt auglýsingar víða í borginni.

„Ég er ekki hættur. Ég mun halda áfram að vekja sem mesta athygli á þessu og hætti ekki fyrr en NFL-deildin fær nóg,“ sagði Bowers brjálaður. Alvin Kamara, stjarna Saints, er ánægður með framtakið.





Barir og veitingastaðir í New Orleans ætla ekki að sýna Super Bowl í mótmælaskyni og svo hafa bakarí verið með kökur af andliti dómara leiksins, Bill Vinovich, en með bannmerki yfir andlitinu.

Svo er að sjálfsögðu undirskriftasöfnun á netinu þar sem þegar hafa 600 þúsund manns skrifað undir.





Eina von stuðningsmanna Saints á breyttum úrslitum er að Goodell virkji reglu sem leyfir honum að grípa til aðgerða þegar miklum órétti hefur verið beitt í leik. Engar líkur eru taldar vera á því að hann geri það.

NFL-deildin hefur líka verið gagnrýnd fyrir þrúgandi þögn í málinu í stað þess að taka á því og gefa eitthvað út varðandi málið. Þögn deildarinnar hefur verið vandræðaleg - rétt eins og dómgæsla leiksins.

NFL

Tengdar fréttir

Þjálfari Saints: Munum líklega aldrei jafna okkur á þessu

Dómarar leiks New Orleans Saints og LA Rams voru í aðeins of stóru hlutverki í gær og yfirmaður dómaramála NFL-deildarinnar viðurkenndi að þeir hefðu gert mistök sem líklega kostaði Saints ferð í Super Bowl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×