Erlent

Ný­sjá­lendingar kjósa um lög­leiðingu líknar­dráps

Atli Ísleifsson skrifar
Jacinda Ardern er forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Jacinda Ardern er forsætisráðherra Nýja-Sjálands. Getty
Nýsjálenska þingið samþykkti í dag að þjóðaratkvæðagreiðsla muni fara fram hvort að lögleiða eigi líknardráp í landinu. Eftir heitar umræður á þinginu var tillagan samþykkt með 63 atkvæðum gegn 57.

Þjóðaratkvæðagreiðslan verður haldin samhliða þingkosningum á næsta ári. Á sama tíma verður kosið um hvort að lögleiða eigi kannabis.

Þingið þarf raunar að samþykkja að þjóðaratkvæðagreiðsla um lögleiðingu líknardráps fari fram í enn einni atkvæðagreiðslunni, en ljóst þykir að gefið verði grænt ljós á hana eftir að þingmenn popúlistaflokksins New Zealand First, sem áður höfðu lýst yfir efasemdum með tillöguna, lýstu yfir stuðningi.

Harete Hipango, þingmaður hins íhaldssama Þjóðernisflokks, segir hugmyndir um lögleiðingu líknardráps vera andstyggilegar. Segir hún það vera skyldu ríkisvaldsins að vernda þá sem væru í hvað viðkvæmastri stöðu.

Þingmaðurinn David Seymour frá hægriflokknum ACT segir að allir nauðsynlegir varnaglar séu fyrir hendi. Þetta séu þá lög sem eigi við um fólk sem hafi greinst með banvænan sjúkdóm og fengið þá greiningu frá tveimur ólíkum læknum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.