Erlent

Danir ljúka við gerð landa­mæra­girðingar

Atli Ísleifsson skrifar
Alls hafa verið settir upp um 27.200 girðingarstólpar.
Alls hafa verið settir upp um 27.200 girðingarstólpar. Getty
Danir ljúka í dag við gerð 1,5 metra hárrar girðingar meðfram landamærum Danmerkur og Þýskalands. Dönsk stjórnvöld sögðu þörf á girðingunni til að verja danska svínastofninn frá sjúkdómum, en gagnrýnendur segja girðinguna ekki geta þjónað því hlutverki og vera táknræna aðgerð.

Í Danmörku er að finna um fimm þúsund svínabú sem flytja út um 28 milljónir svína á ári hverju, um helming útflutnings af dönskum landbúnaðarvörum og um fimm prósent af öllum útflutningi landsins.

Dönsk stjórnvöld sögðu þörf á girðingunni til að verja svínum frá afrískri svínaflensu sem hefur greinst í Evrópu á síðustu misserum.

Kostnaðurinn við gerð hinnar 70 kílómetra löngu girðingar, sem er að finna syðst á Jótlandi, er áætlaður um ellefu milljónir evra, um 1,5 milljarður íslenskra króna.

Í frétt DW segir að gagnrýnendur segi girðinguna vera sóun á almannafé og vinna gegn vandamáli sem sé ekki til staðar. Þá hafi umhverfissinnar lýst yfir áhyggjum af áhrifum girðingarinnar á vistkerfið á svæðinu. Aukinheldur þyki girðingin skýr birtingarmynd harðrar stefnu danskra stjórnvalda í innflytjendamálum.

Alls hafa verið settir upp um 27.200 girðingarstólpar við lagningu girðingarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×