Innlent

Segir ekki mikið svigrúm til að lækka verðið á bjór

Birgir Olgeirsson skrifar
Veitingamaður fagnar því að fjármálaráðherra vilji skoða hvað stjórnvöld geta gert til að létta rekstrarumhverfi veitingahúsa. Hann segir menn þurfa að vanda sig þegar kemur að verðsamanburði á bjór úr vínbúðinni og bjór á bar líkt og fjármálaráðherra gerði. Það vakti mikla athygli þegar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra benti á að verðlagning á bjór á Nordica hótelinu væri 370 prósentum yfir smásöluverði. Bjórinn sem Bjarni keypti kostaði 1.400 krónur en sami bjór kostar 379 krónur úr ÁTVR.Sjá einnig: Bjarna blöskraði bjórverðið á barnum Ráðherra nefndi þetta eftir að stjórnvöld höfðu verið gagnrýnd fyrir hátt áfengisgjald en Bjarni sagði ekki hægt að kenna gjaldinu einvörðungu um þegar svo mikil álagning væri til staðar. Jakob E. Jakobsson, eigandi Jómfrúarinnar og stjórnarmaður í Samtökum ferðaþjónustunnar, segir samanburð fjármálaráðherra hafa verið full einfaldan.„Menn þurfa aðeins að vanda sig að vera ekki að bera saman staðgengisvörur. Þarna er verið að bera saman bjór úr Vínbúðinni annars vegar og vöru keypta á einu kannski fínasta hóteli bæjarins, þar sem er jafnvel fagleg þjónusta að baki. Menn verða að átta sig á því, og ég veit að fjármálaráðherra gerir það, að þú ert að borga fyrir margt og mikið meira en einvörðungu vöruna sem slíka.“Hann segir stöðuna í veitingageiranum í dag ekki frábæra.„Ég veit að ráðherra var eitthvað að tala um það hvort ekki væri hægt að kíkja eitthvað á stöðuna og skoða með okkur hvað hægt væri að gera. Ég myndi svo sannarlega fagna því, ekki síst sem stjórnarmaður í Samtökum ferðaþjónustunnar.“Jakob segir ekki mikið svigrúm til að lækka verðið. „Á Íslandi í dag erum við að vinna með 30 prósent kostnaðarverð seldra vara og 50 prósent launakostnað. Þá gefur auga leið að þá er ekkert mikið eftir til þess að taka af öðrum kostnaði í svona rekstri.“

Tengd skjöl


Tengdar fréttir

Bjarna blöskraði bjórverðið á barnum

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra skellti sér á barinn á Nordica Hilton hótelinu á Suðurlandsbraut um helgina þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hélt flokksráðsfund sinn um helgina.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.