Erlent

Ein af elstu górillum heims er öll

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Vila fæddist í Kongó árið 1957.
Vila fæddist í Kongó árið 1957. San Diego Zoo Safari/Facebook
Ein af elstu górillum heims, Vila, er öll. Vila fæddist í Kongó árið 1957 og var því sextug að aldri. BBC greinir frá þessu.

Vila var í haldi í San Diego Safari dýragarðinum í Kaliforníu er hún drapst en samkvæmt talsmönnum garðsins var hún umvafin fjölskyldumeðlimum á síðustu augnablikum lífs hennar. 

Sjaldgæft er að górillur nái svo háum aldri en þær lifa að meðaltali í 35 til 40 ár. Elsta núlifandi górillan sem vitað er um er 61 árs en hún heitir Trudy og er haldið í dýragarði í Arkansas.

Górillur eru prímatar sem eiga heimkynni sín í Mið-Afríku. Górillur eru jurtaætur og þrífast mest megnis á laufgróðri. Allar tegundir górilla eru í bráðri útrýmingarhættu, ekki síst vegna veiðiþjófnaðar og eyðingu skóga. Þá er talið að allt að fimm þúsund górillur hafi orðið ebóluvírusum, sem hafa reglulega blossað upp á vesturströnd Afríku undanfarin ár, að bráð.

„Hennar verður sárt saknað af starfsfólki dýragarðsins, gestum og sjálfboðaliðum,“ sagði Randy Riches, forstöðumaður spendýrahluta garðsins, í samtali við BBC.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.