Innlent

Varaformaður VG vill að Sigríður segi af sér

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Edward Huijbens, varaformaður Vinstri grænna, segir að Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra, ætti að segja af sér. Hann skaut föstum skotum að kjósendum Sjálfstæðisflokksins á flokksráðsfundiVG í dag og sagði rétt að skila skömminni til þeirra.

Komandi sveitarstjórnarkosningar voru megin viðfangsefni fundarins sem settur var á Grand hóteli í morgun. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hélt ræðu í upphafi dags og fór um víðan völl. Hún vék meðal annars að hrottalegri árás á hælisleitanda á Litla Hrauni og kynferðislegu ofbeldi gagnvart konum af erlendum uppruna.

„Lifum við í því opna samfélagi sem við viljum búa í? Erum við að bjóða fólki eins velkomið og við teljum okkur vera að gera? Þurfum við ekki að fara yfir þessi mál?“ sagði Katrín.

Varaformaðurinn Edward Huijbens hélt hins vegar opnunarerindi fundarins. Þar var hann ómyrkur í máli og sagði meðal annars að farið væri að hitna undir Sigríði Andersen, dómsmálaráðherra, vegna Landsréttarmálsins. Þó þyrfti að gæta þess að kynda ekki of hratt í bálinu.

„Svo það eldist nú allt vel og brenni ekki, þá er gott að hækka hitann rólega,“ sagði Edward og uppskar hlátur.

Ertu að ýja að einhverju? Ætti hún að segja af sér?

„Já mér þætti það nú eðlilegt,“ sagði Edward svo við Stöð 2 í dag. „Ef ég segi það fyrir mína parta. En það er eiginlega hennar að sjá um það, hennar flokks og hennar flokksformanns sérstaklega að sjá um það.“

Katrín sagði þetta mál ekki hafa verið áberandi á fundinum.

„Enda lá það ljóst fyrir þegar við fórum inn í þetta ríkisstjórnarsamstarf, þá lá að sjálfsögðu fyrir það nefndarálit, sem ég lagði fram ásamt öðrum í vor, við afgreiðslu málsins á Alþingi. Þá lá fyrir Héraðsdómur. Þannig að stóru línurnar lágu fyrir. Það breytir því ekki að auðvitað tökum við þennan hæstaréttardóm alvarlega.“

Þau telja þó hvorugt rétt að krefjast afsagnar Sigríðar þvert á vilja Sjálfstæðismanna. Réttara sé að málið fái sína meðferð hjá þingnefnd og eftir atvikum, hjá Umboðsmanni Alþingis. Edward var þó beinskeyttur í garð kjósenda Sjálfstæðisflokksins og sagði rétt að skila skömminni til þeirra.

„Erum við sátt við það að kjósa til þings fólk sem er að fara á svig við lög og reglur og er með alls kyns pukur og makk í farteskinu? Á alltaf að kjósa það bara?“


Tengdar fréttir

Stjórnarandstaðan sökuð um hávaða og pólitískan skrípaleik

Dómsmálaráðherra segir Pírata hafa það markmið að koma henni úr embætti. Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins sakaði stjórnarandstöðuna á Alþingi í dag um pólitískan hráskinnaleik, hávaða og skrípaleik í umræðum um skipan ráðherrans á dómurum í Landsdóm í fyrra.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.