Sport

Gunnar Nelson sendur í 30 daga leyfi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gunnar Nelson var marinn eftir bardagann.
Gunnar Nelson var marinn eftir bardagann. vísir/getty
Gunnar Nelson hefur verið skipaður í 30 daga leyfi frá æfingum og keppni í MMA eftir UFC-bardagann á móti Alex Oliveira í Toronto síðastliðna helgi en hann má ekki fara aftur af stað fyrr en læknir gefur honum grænt ljós. Gunnar getur því hvílt sig yfir hátíðarnar.

Svona leyfi eru fastur liður eftir bardagakvöld í UFC en baradagakapparnir þurfa að hvíla sig og ná sér eftir átökin í búrinu. Munur er á hversu lengi menn þurfa að hvíla og hvort að þeir þurfi læknisvottorð til að fara aftur af stað. Átt er við æfingar þar sem sem „slegist“ er eða svokallað „sparring“.

Gunnar er einn af þeim sem þarf að hvíla í 30 daga og fá læknisvottorð en Alex Oliveira, sem fór illa út úr bardaganum eftir svakalegt olnbogaskot frá Gunnari, þarf að hvíla í tvo mánuði en þarf ekki læknisvottorð til að fá að hefja æfingar á nýjan leik.

Oliveira gaf Gunnari tvö olnbogaskot aftan á höfuðið sem er bæði bannað og stórhættulegt en íslenski bardagakappinn kvartaði yfir þessum höggum strax í viðtalinu við Joe Rogan í búrinu eftir sigurinn.

Brian Ortega, sem tapaði aðalbardaga kvöldsins fyrir Max Holloway þarf að hvíla í hálft ár eftir barsmíðina sem að hann fékk í búrinu aðfaranótt sunnudags og sömuleiðis þarf Chad Laprise að vera frá æfingum og keppni jafn lengi.

Allan hvíldarlistann eftir UFC 231 má sjá hér.

MMA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×