Erlent

Erfiðir dagar bíða Merkel þegar Bæjarar ganga til kosninga

Atli Ísleifsson skrifar
Angela Merkel Þýskalandskanslari og Horst Seehofer innanríkisráðherra.
Angela Merkel Þýskalandskanslari og Horst Seehofer innanríkisráðherra. Getty/Michele Tantussi
Kjósendur í þýsku sambandsríkjunum Bæjaralandi og Hessen munu kjósa til sambandsþinga á sunnudaginn og benda skoðanakannanir til að ríkisstjórnarflokkarnir bíði afhroð.

Marga mánuði tók að setja saman ríkisstjórn í Þýskalandi eftir þingkosningarnar í september á síðasta ári. Að lokum náðist þó samkomulag milli Kristilegra demókrata (CDU), flokks Angelu Merkel kanslara, og systurflokks hans í Bæjaralandi (CSU) og Jafnaðarmannaflokksins (SDP).

Allt frá myndun stjórnarinnar hafa flokkarnir deilt hart um ýmis mál og hafa átökin milli Merkel og innanríkisráðherrans Horst Seehofer, leiðtoga CSU, um innflytjendamál verið sérstaklega mikið í umræðunni.

Stefnir í að flokkarnir bíði afhroð

Kannanir benda til að í Bæjaralandi muni CSU einungis fá um 35 prósent atkvæða, en flokkurinn hefur þar stýrt og náð hreinum meirihluta í marga áratugi. Flótti kjósenda CSU hefur leitt til aukins fylgis bæði Alternativ für Deutschland (AfD) sem berst gegn straumi innflytjenda til landsins, og Græningja (Bündnis 90/Die Grünen).

Ljóst er að niðurstaða kosninganna í Bæjaralandi mun hafa áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið. Verði niðurstaða kosninganna slæm fyrir CSU kann svo að fara að Seehofer hverfi úr leiðtogastóli og embætti innanríkisráðherra. Fari svo kann nýr leiðtogi CSU að verða enn harðari í afstöðu sinni til innflytjendamála, sem myndi skapa enn frekari núning innan ríkisstjórnarsamstarfsins.

Í Hessen benda skoðanakannanir sömuleiðis til að CDU og Jafnaðarmenn missi mikið fylgi.

Samflokksmenn Merkel, meðal annars þingmaðurinn Norbert Röttgen, segja nauðsynlegt að stjórn Merkel breyti um stefnu í ýmsum málum. Landsþing CDU fer fram í desember þar sem kosið verður um hvort Merkel skuli áfram leiða flokkinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×