Fótbolti

Gagnrýnir ráðningu Maradona og líkir komu hans til Mexíkó við vændi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Maradona slakur á æfingu með Dorados de Sinaloa.
Diego Maradona slakur á æfingu með Dorados de Sinaloa. Vísir/Getty
Margir hafa sett spurningamerki við það að eitulyfjafíkillinn Diego Maradona sé allt í einu orðinn þjálfari í nágrenni við einn nafntogaðasta eiturlyfjahring sögunnar.

Maradona sjálfur segist vera kominn til Mexíkó til að hefja nýtt og betra líf en það hljóta flestir að sjá það að þetta er kannski ekki besti staðurinn til þess.

Sjónvarpsmaðurinn José Luis Sánchez Solá sakar Dorados de Sinaloa félagið um að vera að notfæra sér Maradona.

Maradona er einn besti fótboltamaður allra tíma og fjölmiðlar heimsins fjalla mikið um ótrúleg ævintýri hans og vandræði þótt að hann sé fyrir löngu búinn að leggja skóna á hilluna og hafi aldrei náð að fóta sig almennilega sem þjálfari.





Maradona var að sjálfsögðu spurður út í Sinaloa eiturlyfjahringinn þegar hann hélt sinn fyrsta blaðamannafund sem þjálfari Dorados de Sinaloa en talaði þá eins og endurfæddur maður. Hann væri núna kominn til Sinaloa til að kynnast kodda í fyrsta sinn og sofa á nóttinni og vaka á daginn.

Það eru ekki allir sem trúa því að Maradona sé laus við eiturlyfjadjöfulinn og José Luis Sánchez Solá er sannfærður um að svo sé ekki.

„Hann mun ekki geta gert neitt og það er ekki af því að hann getur það ekki heldur af því að hann er veikur,“ sagði Sánchez Solá í viðtali við ESPN.

Diego Maradona hvílir sig á æfingu í Mexíkó.Vísir/Getty
„Maradona þarf ekki á nýju starfi að halda. Hann þarf á hjálp að halda,“ sagði Sánchez Solá.

Sánchez Solá gagnrýnir sérstaklega Antonio Mohamed, þjálfara Celta Vigo, sem hjálpaði Maradona að fá starfið í Dorado.

„Þeir eru að nota hann og það mun ekki enda vel því hann er veikur. Það er ekki hægt að notfæra sér persónu með þessum hætti til að græða sjálfur. Þetta er bara vændi,“ sagði Sánchez Solá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×