Sport

Nýkrýndi Evrópumeistarinn Guðbjörg Jóna: „Man ekkert hvað gerðist, brast í grát og hef ekki hætt“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Guðbjörg Jóna að hlaupinu loknu
Guðbjörg Jóna að hlaupinu loknu mynd/fri
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir varð í dag Evrópumeistari 18 ára og yngri í 100 metra spretthlaupi. Guðbjörg Jóna var sex þúsundustu úr sekúndu á undan næstu hlaupurum.

„Ég kom á áttunda besta tímanum inn og það kom því mikið á óvart að verða í fyrsta sæti,“ sagði Guðbjörg í viðtali eftir hlaupið þar sem hún átti erfitt með að halda aftur af tilfinningunum.

„100 metrar eru ekki mín sterkasta grein, ég er meira að einbeita mér að 200 metra hlaupi, svo ég var rosalega glöð.“

Guðbjörg Jóna komst nærri Íslandsmetinu í undanrásunum þegar hún hljóp á 11,70 sekúndum. Hlaupatími hennar í dag var 11,75 sekúndur, nákvæmlega sá sami og hjá Pamera Losagne og Takacs Boglarak, en Guðbjörg var sex þúsundustu úr sekúndu á undan þeim. Vissi hún strax að hún hefði unnið?

„Já, myndatökumaðurinn var í andlitinu á mér svo ég hafði það á tilfinningunni.“

„Ég veit ekki hvað ég hugsaði þegar ég kom í mark, ég bara brast í grát og ég get ekki hætt,“ sagði Guðbjörg og þerraði augun.

„Ég man eftir því að hafa byrjað vel, en endaspretturinn, ég veit ekki. Þetta kom mér svo mikið á óvart. Ég var meidd í fimm mánuði og það eru bara þrír mánuðir síðan ég byrjaði að hlaupa aftur svo ég er mjög glöð að vera komin aftur á brautina,“ sagði Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir.

Viðtalið við hana má sjá hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×