Innlent

Skildi ekki hvers vegna Sindri var að segja honum frá upp­lýsinga­þjófnaði í ótal skila­boðum

Birgir Olgeirsson skrifar
Sindri Þór Stefánsson sést hér fyrir miðri mynd þar sem hann kemur í Héraðsdóm Reykjaness í morgun.
Sindri Þór Stefánsson sést hér fyrir miðri mynd þar sem hann kemur í Héraðsdóm Reykjaness í morgun.
Aðalmeðferð hófst í Bitcoin-málinu svokallaða í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Þar eru sjö ákærðir fyrir aðild að einu stærsta þjófnaðarmáli Íslandssögunnar.

Þrír ákærðu komu fyrir dóm í morgun og gáfu skýrslu en enginn þeirra kvaðst hafa átt Bitcoin eða hafa mikla þekkingu á slíku. Töluverður hiti var í dómsal í morgun og þurfti dómari að biðja verjendur í málinu að hafa sig hæga.

Hafþór Logi Hlynsson er einn hinna ákærðu. Hann gaf skýrslu fyrir dóm í morgun en hafnaði því að hafa átt einhverja aðkomu að málinu.

Spurður hvers vegna fjöldi skilaboða fóru á milli hans og Sindra Þórs Stefánssonar, sem einnig er ákærður í málinu, á þeim tíma þegar brotist var inn í gagnaver Advania í janúar síðastliðinn, sagðist hann ekki beint vita það en hann og Sindri væru æskuvinir.

Á meðal skilaboða sem þeirra fóru á milli voru upplýsingar frá Sindra um að „kerfið“ hefði farið í gang og þeir ekki komnir yfir hliðið bak við. Var þetta í aðdraganda innbrotsins og segir Sindri að þeir ætli að bíða eftir „gæjanum“ og setja „tracker“ undir. Hafþór svarar „Fokk, þetta er slæmt.“

Þjófnaður úr gagnaverum í Reykjanesbæ og Borgarnesi

Málið varðar þjófnað úr gangaverum í Reykjanesbæ og Borgarnesi í desember í fyrra og janúar síðastliðnum. Geta brotin varðað allt að sex ára fangelsi samkvæmt hegningarlögum.

Á meðal ákærðu er Sindri Þór Stefánsson en gefin var út alþjóðleg handtökuskipun á hendur honum eftir að hann fór af landi brott eftir að hafa setið í gæsluvarðhaldi í tólf vikur vegna rannsóknar málsins. Hann var handtekinn í Amsterdam nokkrum dögum síðar og færður heim til Íslands þar sem hann var úrskurðaður í farbann.

Sindri greiddi síðan 2,5 milljónir króna til að losna úr farbanni og flutti til Spánar en lofaði að vera viðstaddur aðalmeðferð málsins. Hann er mættur í dómsal í dag ásamt hinum sakborningunum sex.

Mennirnir eru ákærðir fyrir aðild að innbrotum í fjögur gagnaver þrjár nætur í desember í fyrra og janúar síðastliðnum og tilraunir til innbrota í tvö önnur.

Í ákærunni segir að þjófarnir hafi stolið 2.250 tölvuíhlutum, þar á meðal 350 bitcoin-tölvum, hátt í 500 aflgjöfum og spennum, yfir 800 skjákortum, 120 móðurborðum og jafnmörgum örgjörvum. Andvirði búnaðarins sé um 96 milljónir króna en tjón fyrirtækjanna er talið nema 135 milljónum. Búnaðurinn er enn ófundinn.

Á meðal ákærðu er fyrrverandi öryggisvörður sem er sagður hafa látið þjófana fá öryggisupplýsingar um gagnaver Advania ásamt fatnaði merktum fyrirtækinu sem brotist var inn í.

Byggingin í Borgarnesi þar sem brotist var inn um nótt til að stela tölvum úr gagnaveri.Fréttablaðið/Ernir

Sendi mynd af tækjarými og spurði út í hreyfiskynjara

Fyrst var brotist inn í Algrim Consulting slf. og BDC Mining ehf., bæði á Ásbrú, að kvöldi 5. desember og aðfaranótt 6. desember. Reynt var að fara inn í annað gagnaver BDC Mining í nágrenninu dagana 5. til 10. desember en án árangurs.

Farið var inn í gagnaver AVK ehf. í Borgarnesi aðfaranótt 15. desember í Borgarnesi en aðfaranótt annars í jólum var aftur reynt að brjótast inn í bæði gagnaver BDC Mining ehf. á Ásbrú en mennirnir sem eru ákærður eru sagðir í ákæru hafa flúið af hólmi þegar þjófvarnakerfi fór í gang. Aðfaranótt 16. janúar síðastliðinn var brotist inn í gagnaver Advania Data Centers á Ásbrú.

Á meðal þeirra sem gáfu skýrslu fyrir dómi í morgun var Hafþór Logi Hlynsson. Hann er ákærður fyrir að hafa undirbúið, lagt á ráðin, skipulagt og framkvæmt innbrot og þjófnað í gagnaver Advania að Sjónarhóli 16 á Ásbrú í Reykjanesbæ aðfaranótt 16. janúar síðastliðinn, ásamt Sindra Þór Stefánssyni og bræðrunum Matthíasi Jóni og Pétri Stanislav Tryggvasonum.

Hafþór hafnaði því að hafa einhverja aðkomu að þessu máli. Við aðalmeðferðina las Alda Hrönn Jóhannsdóttir, saksóknari í málinu, upp fjölda skilaboða sem fóru á milli Sindra Þórs og Hafþórs fyrir innbrotið og á meðan það átti sér stað.

Sendi Sindri honum meðal annars mynd úr tækjarými, spurði Hafþór út í hreyfiskynjara og nefndi ýmsa hluti sem gengu á, á meðan þeir voru fyrir utan gagnaver Advania.

Tveir ákærðu mæta í dómsal í Héraðsdómi Reykjaness í morgun.Vísir/Vilhelm

Fékk veður af því að Sindri ætlaði að stela upplýsingum fyrir fjármuni

Spurður hvers vegna Sindri sendi honum þessi skilaboð sagðist Hafþór ekki beint vita það, en sagði þá tvo hafa verið vini frá sex ára aldri og þeir deildu öllu. Ef þeir ættu við vandamál að stríða í lífinu, hvort sem það væru erfiðleikar í samböndum eða peningavandamálum, þá ræddu þeir það og hjálpuðust að.

Hafþór sagðist hafa vitað til þess að Sindri hefði verið í fjárhagserfiðleikum. Sindri hefði fjárfest í fasteign úti á Spáni þar sem Hafþór hafði einnig keypt fasteign og sagði Sindra mögulega hafa farið fram úr sér í fjárfestingum, verið hættur að vinna sem forritari, konan að fara að hefja flugnám og að hann hefði þurft á peningum að halda.

Sagðist hann hafa fengið veður af því að Sindri hefði ætlað sér að stela upplýsingum fyrir fjármuni og að Sindri hefði sent sér smáskilaboð um framgang málsins.

Hafþór sagðist ekki beint hafa vitað hvað Sindri hefði verið að gera á þeim tíma sem fjöldi skilaboða gengu á milli þeirra að kvöldi 15. janúar og aðfaranótt 16. janúar.

Hafþór Logi (til vinstri) ásamt Sindra Þór Stefánssyni (til hægri) og Viktori Inga Sigurðssyni í Amsterdam, en Hafþór setti þessa mynd á samfélagsmiðilinn á meðan lögregla leitaði Sindra sem hafði strokið frá fangelsinu að Sogni. Hafþór Logi er einn hinna ákærðu í Bitcoin-málinu svokallaða.Instagram @haffilogi

Föruneytið og manneskjan XYZ

Dómarinn benti á að fjöldi skilaboða hefði gengið þeirra á milli og Hafþór hefði sagt við aðalmeðferð málsins að hann teldi Sindra hafa verið að undirbúa stuld á upplýsingum.

Dómari sagði að menn sem stunda slíkt myndu væntanlega vilja fara leynt með það og færu ekki að segja manneskjum frá því sem hefðu enga aðkomu að málinu. Spurði dómarinn Hafþór hvort hann hefði verið þögull hlustandi á meðan þessu fór fram. Hafþór endurtók að þeir hefðu verið vinir frá sex ára aldri og deildu öllu.

Dómarinn spurði hvort Hafþóri hefði ekki þótt óþægilegt að vita slíkar upplýsingar og svaraði Hafþór: „Jú, væntanlega.“

Við aðalmeðferðina í dag voru bræðurnir Matthías Jón og Pétur Stanislav spurðir út í hóp sem kallaður er Föruneytið og manneskju sem gengur undir heitinu XYZ. Hvorugur kannaðist við þetta.  

Þegar skýrslutaka fór fram yfir Hafþóri kom hins vegar fram að Föruneytið er Facebook-hópur sem vinahópur hans hefði verið í þar sem þeir deildu fréttum og slúðri. Jafnframt kom fram í máli Hafþórs að Sindri hefði skírt Hafþór XYZ í síma Sindra, eftir að saksóknari hafði bent Hafþóri á að gögn málsins bentu til þess.

Alda Hrönn Jóhannsdóttir saksóknari hjá lögreglunni á Suðurnesjum sækir málið af hálfu ákæruvaldsins.Fréttablaðið/Ernir

Segist ekki hafa vitað hvað Sindri var að tala um

Alda Hrönn benti á að Sindri hefði, ásamt öðrum, verið í leit að iðnaðarhúsnæði í janúar á þessu ári. Hafþór sagðist í fyrstu ekki hafa viljað tjá sig um það en sagði síðar að Sindri og aðrir hefðu verið með hugmynd um að setja upp kannabisræktun. Hafþór var spurður hvort hann kannaðist við iðnaðarhúsnæði á Hofsósi, en hann sagðist ekkert vita um það.

Saksóknari spurði Hafþór ítrekað hvers vegna hann og Sindri hefðu átt í svo miklum samskiptum að kvöldi 15. janúar en Hafþór svaraði að hann hefði ekki mikið spáð í því hvað Sindri hefði verið að senda honum.

Hann hefði verið stuttur í spuna í svörum til Sindra og ekki gefið mikið af sér. Sindri spurði Hafþór meðal annars út í „tracker“ eða eftirfararbúnað, hreyfiskynjara sem fóru í gang og hvort Matti og Pétur væru á staðnum.

Í skilaboðum Sindra til Hafþórs að kvöldi 14. janúar sagði Sindri að „kerfið“ hefði farið í gang, þeir ekki komnir yfir hliðið á bak við. Þeir ætluðu að bíða eftir „gæjanum“ og setja „tracker“ undir. Hafþór svaraði þeim skilaboðum: „Fokk, þetta er slæmt.“

Hafþór sagðist ekki hafa vitað hvað Sindri var að tala um, hann hefði ekki haft sig mikið í frammi, verið stuttur í svörum. Alda Hrönn spurði Hafþór hvers vegna Sindri vildi að Hafþór vissi þetta en hann sagðist ekki hafa spurt hann frekar út í það.

„Elskum þetta“

Hafþór hafði nefnt við Sindra í skilaboðum að hreyfiskynjarinn hefði mögulega farið í gang vegna bilunar. Þegar í ljós kom að um bilun hefði verið að ræða svaraði Hafþór:

„Geðveikt, þetta er fullkomið, elskum þetta.“

Alda Hrönn spurði Hafþór hvað hefði verið fullkomið og hvað hefði verið að elska. Hafþór sagðist ekki muna það en þetta hefði verið væntanlega verið tengt verkefni Sindra og þar hefði legið mikið undir.

„Þetta er það besta í fokking heimi,“ sendi Hafþór einnig og útskýrði fyrir dómi að hann hefði væntanlega verið að gleðjast yfir því að þetta hefði verið takast hjá Sindra.

„Ég svara bara svona. Þetta var kannski ekki fallegasta orðalagið.“

Aldra Hrönn vitnaði enn í samskipti á milli Sindra og Hafþórs en þar kom meðal annars fram að Sindri hefði ekki fundið Hafþór í síma sínum undir heitinu „Haffi Pink“ en hefði hins vegar fundið hann undir heitinu XYZ. Í framhaldi minnti Hafþór hann á að breyta nafninu í símanum, en Hafþór sagði það ekkert óeðlilegt að gera það ef einhver átti í vandræðum með að finna símanúmer.

31. janúar sendi Hafþór aftur áminningu um að muna að skipta um nafn en þeirri ábendingu fylgdi broskall.

Málið er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness.Fréttablaðið/gva

Reyndi að leita leiða til að redda sér „úr þessum skít“

Matthías Jón Karlsson var fyrstur til að gefa skýrslu fyrir dómi. Matthías sagðist hafa misst vinnuna eftir að hafa verið sakaður um innbrotið í Borgarnes sagðist hafa verið reiður Sindra Þór.

Matthías sagðist hafa verið tekjulaus, barn á leiðinni og hann reynt að leita leiða til að redda sér „úr þessum skít“. Hann sagði að Sindri hefði nefnt verkefni við sig, það hefði síðar reynst vera innbrot í gagnaver Advania.

Hann sagði Sindra ekki hafa skipulagt innbrotið og vildi ekki tjá sig um aðild annarra að málinu, nema þá er varðar ákærða Ívar Gylfason sem hann sagði hafa verið þann sem dreif Advania-innbrotið áfram. Ívar var starfsmaður öryggisfyrirtækisins sem annaðist öryggisgæslu fyrir gagnaverið. Hann hefði verið með öryggiskóða, þekkt húsnæðið, útvegað fatnað til innbrotsins og hvatt menn til dáða.

Matthías sagðist hafa átt að fá tvær milljónir króna fyrir innbrotið. Hann sagðist hafa fengið fatnað öryggisvarðar frá Ívari og hann hefði farið inn í gagnaverið til að sækja búnaðinn og tveir menn hefðu hlaðið honum í bílinn.

Hræddur við menn sem eru ekki inni í dómsalnum

Matthías kannaðist við að hafa keypt bláan sendiferða bíl fyrir Sindra fyrir áttatíu þúsund krónur. Sagðist hann hafa skilið hann eftir í Grafarholti og sett lyklana undir bílsæti og bíllinn hefði síðan verið sóttur af einhverjum sem hann vissi ekki hver væri.

Hann var ítekað spurður út í „tracker“ en Matthías sagðist einu sinni hafa tengst slíkum tracker, fengið símanúmer til að tengjast honum en hann hefði aldrei verið notaður. Hann sagði meðákærða Viktor Inga Jónsson hafa átt „tracker-a“ sem hann hafði sett á bílaleigubíla til að hafa upp á þeim því þeir væru skyldir eftir út um allt land.

Matthías tjáði sig lítið um þátt og aðild annarra að málinu. Þegar verjandi hans spurði hvers vegna stæði á því svaraði Matthías að hann óttaðist menn sem væru ekki inni í dómsalnum.

Ítrekaði sakleysi sitt í málinu

Verjandi Ívars Gylfasonar spurði hvers vegna hann vildi ekki gefa upp hverjir stóðu að innbrotunum með honum en hann væri snöggur að gefa upp nafn Ívars.

Matthías sagði að Ívar hefði haldið því fram að hann hefði átt að hafa hótað Ívari, konu Ívars og börnum Ívars. Það væri ekki rétt og að hann vildi að sannleikurinn kæmi fram. Þessar ásakanir Ívars væru meðal annars ástæðan fyrir því að hann væri fljótur að gefa nafn hans upp.

Bæði Matthías og Pétur voru spurðir út í ferð sem þeir fóru til Akureyrar að kvöldi 6. desember og sneru aftur 7. desember. Hvorugur vildi tjá sig um þá ferð. Hún hefði verið á gráu svæði sögðu þeir báðir. Matthías sagði að það sem þeir gerðu þar hefði verið ólögmætt en tengdist þessu máli ekki.

Pétur Stanislav tjáði sig lítið fyrir dómi. Hann ítrekaði sakleysi sitt í málinu, sagðist muna lítið frá þeim tíma sem atburðir áttu að hafa átt sér stað. Sagði Pétur að málið hefði haft slæm áhrif á sig, hann hefði lokað sig af frá vinum og fjölskyldu og væri haldinn kvíða og þunglyndi.


Tengdar fréttir

Fengu nei við frávísunarkröfu í Bitcoin-málinu

Héraðsdómur Reykjaness hafnaði í dag frávísunarkröfu fimm sakborninga af sjö í bitcoin-málinu svonefnda þar sem sjö karlmenn eru grunaðir um aðild að einu stærsta þjófnaðarmáli Íslandssögunnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.