Erlent

Vestrænir leiðtogar harma ákvörðun Trump

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Macron, May og Merkel eru ósammála Trump.
Macron, May og Merkel eru ósammála Trump. Vísir/getty
Stjórnvöld í Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Rússlandi og Kína segjast öll vera staðráðin í að halda kjarnorkusamningnum við Íran til streitu. Donald Trump tilkynnti í gær að hann hygðist draga Bandaríkin úr samningnum en forsetinn hefur lengi hatast við samkomulagið sem hann hefur lýst sem „geðveiku“.

Fulltrúar ríkjanna fimm hafa á síðustu vikum reynt ítrekað að tala Trump af því að rifta samkomulaginu. Þeir viðurkenna að þó að samningurinn sé kannski ekki fullkominn sé hann þó skömminni skárri en enginn.

Bandaríkjamenn, Frakkar, Bretar, Rússar, Kínverjar, Þjóðverjar og Evrópusambandið gerðu samkomulagið við Írani árið 2015. Í því fólst að Íranir takmörkuðu kjarnorkuframleiðslu sína gegn því að heimsveldin felldu niður refsiaðgerðir sínar gegn þeim.

Sjá einnig: Trump dregur Bandaríkin út úr kjarnorkusamningnum við Íran

Írönsk stjórnvöld tilkynntu jafnframt í gær að þau myndu hefja aftur auðgun úrans, ef samningnum yrði ekki bjargað.

Hassan Rouhani, forseti Írans, sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem hann sagði að utanríkisráðuneyti landsins fengi nú það hlutverk að setjast við samningaborðið með aðilum að fyrra samkomulagi - vitaskuld að frátöldum Bandaríkjunum.

Forsetinn ítrekaði þó að náist samningar að nýju muni Íranar að sjálfsögðu standa við hann.

Bandaríkjaforseti sagði í ræðu sinni í gær að hann myndi aftur setja á „þyngstu mögulegu viðskiptaþvinganir“ á Íran, sem hann hefur lengi grunað um að hafi farið á svig við fyrri samning.

Stjórnmálaskýrendur telja að ákvörðun Trump muni einangra Bandaríkjastjórn á alþjóðavettvangi, setja samskiptin við þessar helstu bandalagsþjóðir í uppnám, gera samskiptin við Kínverja og Rússa enn stirðari og auka óstöðugleika í Austurlöndum nær.


Tengdar fréttir

Trump dregur Banda­ríkin út úr kjarn­orku­samningi stór­veldanna

Bandaríkjamenn, Frakkar, Bretar, Rússar, Kínverjar, Þjóðverjar og Evrópusambandið gerðu samkomulagið við Írani árið 2015. Í því fólst að Íranir takmörkuðu kjarnorkuframleiðslu sína gegn því að heimsveldin felldu niður refsiaðgerðir sínar gegn þeim.

Obama segir ákvörðun Trump „alvarleg mistök“

Theresa May forsætisráðherra Bretlands, Angela Merkel kanslari Þýskalands og Emmanuel Macron Frakklandsforseti gáfu út sameiginlega yfirlýsingu þar sem að þau lýsa yfir áhyggjum og harma ákvörðun Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×