Sport

„Ungu fólki vantar þekkingu á lyfjamisnotkun“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Lilja Alfreðsdóttir, mennata- og menningarmálaráðherra, og Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, undirrituðu skipulagsskrá Lyfjaeftirlits Íslands á blaðamannafundi í dag.

Lyfjaeftirlit hefur verið starfrækt á Íslandi síðan 1989 en nú í fyrsta sinn verður starfssemin algerlega ótengd annarri íþróttastarfssemi.

Birgir Sverrisson, sem hefur gegnt stöðu verkefnastjóra í Lyfjaeftirliti ÍSÍ, segir að þetta komi í veg fyrir mögulega hagsmunaárekstra, auki alþjóðlegt samstarf sem og trúverðugleika lyfjaeftirlits á Íslandi.

Þá verði sinnt forvarnarstarfi og upplýsingagjöf til þriðja aðila, svo sem líkamsræktastöðva, sem og almennings.

„Með þessu skrefi þá voru fjárframlögin aukin örlítil. Það er aðeins dýrara að halda úti sjálfstæðri stofnun heldur en að einhver annar sé með hana,” segir Birgir, verkefnastjóri.

Um 150 sýni eru tekin á Íslandi á ári hverju og 2,5 prósent þeirra mælast jákvæð. Það er heldur meira en gerist almennt í heiminum og telur Birgir að það þurfi að gera meira í þessum málaflokki á Íslandi.

„Ég tel að það vanti gríðarlega upp á þekkingu frá ungu fólki hvað varðar lyfjamisnotkun. Hún er svolítið hunsuð. Ég hef átt samtöl við forsvarsmenn lyfjafyrirtækja og íþróttafélaga út um allt land og það er eins og að það hafi ekki komið til skila sú hætta. Við þurfum að bæta það.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×