Sport

Beðið eftir að Till samþykki að berjast við Gunnar: „Væri mjög undarlegt að hafna þessu“

Gunnar Nelson gæti barist í Lundúnum annað árið í röð.
Gunnar Nelson gæti barist í Lundúnum annað árið í röð. Mynd/Mjölnir/Sóllilja Baltasars
Eins og kom fram í gærkvöldi vill UFC-bardagasambandið að Gunnar Nelson mæti Englendingnum Darren Till í aðalbardaga kvöldsins á UFC Fight Night í Lundúnum 17. mars.

Gunnar er búinn að samþykkja að berjast umrætt kvöld en beðið er eftir því að Till samþykki svo báðir aðilar geti hafist handa við undirbúning sem og UFC geti farið að gera allt klárt.

Gunnar barðist síðast í Glasgow í Skotlandi síðasta sumar og tapaði þá á umdeilanlegan hátt gegn augnpotaranum argentínska Santiago Ponzinibbio.

„Sean Shelby [maðurinn sem raðar upp bardögum fyrir UFC, innsk. blm] bauð okkur þetta í gær og við sögðum já. Mér skilst að Till og hans menn séu eitthvað að draga fæturnar í þessu sem er undarlegt miðað við fyrri yfirlýsingar frá honum,“ segir Haraldur Dean Nelson, faðir og umboðsmaður Gunnars, í samtali við Vísi.

Eins og sást í tísti Johns Kavanagh, þjálfara Gunnars, í gærkvöldi hafa Till og Gunnar aðeins verið að æsa upp í hvorum öðrum á Twitter og því um að gera að mætast í búrinu og ganga frá sínum málum.

Till átti von á „stærri“ bardaga en UFC vill að hann berjist við Stephen „Wonderboy“ Thompson sem er efstur á styrkleikalista veltivigtarinnar á eftir meistaranum Tyron Woodley. Thompson er aftur á móti meiddur og getur ekki barist.

Í staðinn fær Till þarna frábært tækifæri til að berjast á heimavelli og segir Haraldur að það væri skrítið ef ekki verður af þessum bardaga.

„Það væri mjög undarlegt að hafna þessu. Aðalbardaginn á UFC London er stærsti bardaginn í Evrópu á hverju ári,“ segir Haraldur Nelson.

MMA

Tengdar fréttir

Gunnar samþykkti bardaga við Till

Bardagi Gunnars Nelson og Darren Till gæti orðið aðalviðburður UFC bardagakvöldsins í London sem fer fram í mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×