Erlent

Makedónska þingið samþykkir að breyta nafni landsins

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Zoran Zaev, forsætisráðherra Makedóníu, ræðir við fjölmiðla eftir atkvæðagreiðslu þingsins í gær.
Zoran Zaev, forsætisráðherra Makedóníu, ræðir við fjölmiðla eftir atkvæðagreiðslu þingsins í gær. Vísir/AP
Makedónska þingið samþykkti í gær að breyta nafni landsins, sem heitir nú formlega lýðveldið Makedónía. Gangi nafnabreytingin í gegn mun ríkið heita Norður-Makedónía.

Með nafnabreytingunni vonast Makedóníumenn til þess að binda enda á áratugalangar deilur milli Makedóníu og Grikklands, en Grikkir hafa haldið því fram að í nafni Makedóníu felist tilkall til landsvæðis sem liggur innan landamæra Grikklands.

Þá mun Makedónía færast nær markmiði sínu um að gerast aðildarríki Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins, en Grikkir hafa hingað til hindrað allar tilraunir Makedóníumanna til inngöngu í samböndin einmitt vegna áðurnefndrar nafnadeilu.

Þrátt fyrir að þingið hafi samþykkt nafnabreytinguna, sem felur í sér breytingu á stjórnarskrá landsins, er enn nokkuð langt í að breytingin nái fram að ganga. Kjósa þarf nokkrum sinnum um breytinguna og var atkvæðagreiðsla þingsins sú fyrsta sem fram hefur farið um málið. Þó eru makedónskir ráðamenn nokkuð bjartsýnir um að nafnabreytingin verði að veruleika.

„Í dag er sögulegur dagur fyrir landið okkar,“ sagði forsætisráðherra Makedóníu, Zoran Zaev. „Makedónía verður hluti af Evrópufjölskyldunni og draumar okkar um betra líf í betra landi verða loks að veruleika.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×