Pilturinn sem lést í slysi í Suður-Afríku um liðna helgi hét Bjarni Salvar Eyvindsson. Frá þessu er greint á vef DV en Bjarni Salvar var nítján ára gamall.
Hann hafði farið til Suður Afríku til að vinna sem sjálfboðaliði í tvær vikur.
Bjarni hafði farið í göngu á Tafelberg-fjall, sem er um sex hundruð metra hátt, við Höfðaborg ásamt tveimur vinum sínum síðastliðinn laugardag en varð viðskila við þá sökum veðurs. Lögreglan í Höfðaborg greindi frá því í samtali við Vísi í gær að aðstæður hefðu verið fremur slæmar á fjallinu um helgina, þar á meðal hvöss suðaustan átt.
Þegar vinum Bjarna varð það ljóst að hann hafði ekki skilað sér niður fjallið gerðu þeir þjóðgarðsvörðum viðvart sem ræstu samstundis út leitarflokka. Fjallgöngumaður fann lík Bjarna í Platteklip-gljúfri á sunnudagsmorgun.
Johan Marias, talsmaður Wilderness Search and Rescue í Höfðaborg sagði í samtali við fréttastofu í gær að talið sé að Bjarni hafi hlotið höfuðhögg eftir mikið fall af útsýnisstað.
Lögreglan í Höfðaborg sagði í samtali við Vísi í gær að ekki sé talið dauða hans hafi borið að með saknæmum hætti.
Á vef DV er greint frá því að kostnaðarsamt ferli sé fyrir höndum hjá fjölskyldu Bjarna og er hafin söfnun til styrktar henni.
Þeir sem vilja leggja lið er bent á söfnunarreikning hér fyrir neðan:
Kennitala: 100477-3439, reikningsnr: 0140-05-071968.
Nafn piltsins sem lést í Suður-Afríku

Tengdar fréttir

Talið er að pilturinn hafi orðið viðskila við vini sína sökum slæms veðurs
Lögregla í Höfðaborg útilokar saknæmt athæfi vegna dauða íslensks pilts í hlíðum Table-fjalls í Suður-Afríku.

Talinn hafa látist eftir allmikið fall
Íslendingurinn sem fannst látinn í hlíðum Table-fjalls við Höfðaborg í Suður-Afríku er talinn hafa látist eftir að hafa fallið úr allmikilli hæð.

Íslenskur piltur fannst látinn í Suður-Afríku
Fannst látinn á Table-fjalli í Cape Town í gær.