Erlent

Violet Brown orðin elsta manneskja heims

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Violet Brown er 117 ára. Elsti sonur hennar er 97 ára.
Violet Brown er 117 ára. Elsti sonur hennar er 97 ára.
Hin 117 ára Violet Brown frá Jamaíku er orðin elsta manneskja heims eftir að Emma Morano lést um síðastliðna helgi. Brown er fædd 10. mars árið 1900 og starfaði lengst af sem tónlistarkennari og organisti. Elsti sonur hennar er 97 ára gamall.

Brown sagði enga leyniuppskrift að langlífinu, í samtali við dagblaðið the Gleaner á 110 ára afmælinu hennar. „Í alvöru talað, þegar fólk spyr mig hvað ég borða og drekk til þess að geta lifað svona lengi þá segi ég þeim að ég borði allt, nema svínakjöt og kjúkling, og ég drekk ekki romm,“ sagði hún.

Brown starfaði sem tónlistarkennari og organisti í meira en 80 ár. Hún skipti hins vegar um starfsvettvang árið 1997 eftir fráfall eiginmanns hennar og tók við starfi hans við skrásetningu í kirkjugarði. Þar starfaði hún þar til hún varð 100 ára.

Emma Morano lést á heimili sínu síðastliðinn laugardag, en eftir andlát hennar er engin manneskja á lífi sem fæddist fyrir árið 1900. Hún fæddist 29. nóvember 1899 og kom frá Ítalíu.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×