Lífið

Íslendingarnir á CrossFit-leikunum: „Hentar okkur mun betur að vera í Madison en í LA“

Atli Ísleifsson og Jóhann Óli Eiðsson skrifa
Lið CrossFit Reykjavíkur í Madison í Wisconsin.
Lið CrossFit Reykjavíkur í Madison í Wisconsin. CrossFit Reykjavík
„Það er mjög næs að vera í Madison. Það er svolítið rakt hérna en hitinn er ekki svona sjúkur eins og Los Angeles,“ segir Sólveig Sigurðardóttir, fyrirliði liðs CrossFit Reykjavíkur, sem keppir í liðakeppni CrossFit-heimsleikanna sem hófust í Madison í Wisconsin í dag.

Sólveig segir að hitinn hafi mest farið upp í 28 gráður í Madison. „Við erum ekki að keppa í sól eins og LA þar sem leikarnir hafa verið haldnir síðustu ár. Þetta hentar okkur betur, eru ekki eins mikil viðbrigði. Maður þarf samt að mæta nokkuð fyrir keppni og venjast aðstæðum. Fyrsta æfingin sem við tókum var mjög erfið en þetta hefur vanist,“ segir Sólveig, en liðið mætti til Madison þann 22. júlí.

Hún segir að liðið hafi dvalið í litlum bæ fyrir utan Madison. „Þetta er mjög chillað. Við æfum, borðum, sofum og pössum að allt og allir séu í sandi. Við höfum verið að leika okkur í körfubolta og fleira skemmtilegt.“

Lið CrossFit Reykjavíkur hefur haft mjög góðan tíma til að æfa saman fyrir mót og segir Sólveig að allir séu með einbeitinguna og hausinn í lagi. „Við erum tvö í liðinu sem stundum þetta „full time“. Hinir eru allir í vinnu. En þetta er það sem við gerum.“

Öðruvísi að æfa í liði

Sólveig segir að það sé einungis einn nýliði í hópnum, hinir hafi allir farið áður á Heimsleikana. Stefán hafi síðan verið varamaður síðast þegar hann fór út. „Við höfum æft saman síðan fyrir jól. Þá byrjaði þetta þar sem við æfðum fyrst fyrir Evrópuleikana, en við höfum sem sagt æft saman í einhverja átta mánuði. Þetta var stærri hópur en svo var köttað niður. Við vorum saman á Evrópumótinu þannig að við erum öll vön hvert öðru.“

Hún segir allt öðruvísi að æfa með liði samanborið við að æfa og keppa sem einstaklingur. „Þar ertu ekki að fókusa á þig sem einstakling þar sem hægt er að fara heim að fókusa á sína veikleika. Hér vinnum við sem lið og fólk gerir það sem er best fyrir liðið.“

Þegar Vísir náði tali af Sólveigu fyrr í vikunni sagði hún að nú færi þetta að verða alvöru. „Við erum búin að fá fötin og passana. Það er aðeins að kvikna í manni. Við höfum verið að chilla dagana hérna úti, hreinsa hausinn og hafa gaman. Við tökum þessu ekki of alvarlega.“

Sólveig segir liðið stefna á að ná á topp 20, en alls eru um fjörutíu lið skráð til leiks.

Birna Blöndal Sveinsdóttir, 30 ára

Þetta er í fyrsta skiptið sem Birna fer á leikana.

Sterkustu æfingar: „Hlaup, fimleikaæfingar og bodyweight æfingar.“

Byrjaði í CrossFit: „Mig langaði að koma mér í form eftir barnsburð, datt inn í CrossFit og leit aldrei til baka. Ég keppti á Evrópuleikunum tæplega hálfu ári eftir að ég byrjaði í Crossfit og síðan þá hef ég verið alveg „hooked“.“

Harpa Dögg Steindórsdóttir, 25 ára

Þetta er í annað skipti sem hún fer á leikana, en hún fór líka með liði Crossfit Reykjavíkur árið 2015.

Sterkustu æfingar: „Fimleikaæfingar. Handstöðuganga, upphýfingar, muscle up og þess háttar.“

Byrjaði í CrossFit: „Ég byrjaði í Crossfit í lok árs 2012. Ég æfði fimleika í mörg ár en átti erfitt með að finna rétta íþrótt eftir að ég hætti í fimleikum. Fann strax að Crossfit hentaði mér mjög vel.“

Hilmar Arnarson, 27 ára

Þetta er í annað skipti sem hann fer á leikana.

Sterkustu æfingar: „Fimleikaæfingarnar eru mín sterkasta hlið, upphífingar, tær í slá, handstöðulabb, muscle up, kaðlar o.fl.“

Byrjaði í CrossFit: „Árið 2014 þegar kærastan mín dró mig með sér á Bootcamp æfingu en við slysuðumst óvart inn í Crossfit tíma. Stuttu seinna fórum við síðan sem áhorfendur á Games og þá var ekki aftur snúið.“

Skemmtilegt atvik: „Þau eru heldur betur mörg! Ætli það sé ekki eftirminnilegast þegar ég var að keppa á mínu fyrsta stórmóti í London, en þar áttum við að spretta 400 metra og ég togna aftan í lærinu eftir fyrstu fimm metrana! Kláraði þó alla 400 metrana en það var mikið hlegið af hlaupastílnum þessa 395 metra sem eftir voru.“

Sólveig Sigurðardóttir, 22 ára 

Þetta er í annað skipti sem hún fer á leikana.

Sterkustu æfingar: „Ólympískar lyftingar.“

Byrjaði í CrossFit: „Ég byrjaði í ágúst árið 2012. Frænka mín var að æfa eitthvað nýtt sem hét Crossfit og ég ákvað að slá til og reyna að koma mér aftur í form eftir skiptinemaár á Spáni.“

Stefán Ingi Jóhannsson, 23 ára.

Þetta er í fyrsta sinn sem hann fer á CrossFit-leikana.

Sterkustu æfingar: „Æfingar þar sem ég næ að nýta mér hæð mína, eins og til dæmis í róðri eða kaðla klifri.

Byrjaði í CrossFit: „Evert Víglundsson, yfirþjálfari Crossfit Reykjavíkur, var með æfingar fyrir skíðafélagið ÍR á sumrin þegar ég æfði skíði fyrir að verða nokkuð mörgum árum síðan. Þannig kynntist ég Crossfit og hætti svo að æfa skíði þegar ég áttaði mig á því að ég var að vonast til að það væri lokað í Bláfjöllum svo ég kæmist á Crossfit æfingu í staðinn.“

Skemmtilegt atvik: „Í undirbúningi fyrir Evrópumeistara mótið í Crossfit 2013 lærði æfingarfélagi minn að gera backflipp úr standandi stöðu. Mér fannst það svo töff að geta gert það að mér fannst ég verða að læra það líka. Ég verð seint talinn fimleikadrottning. Ég að sjálfsögðu gugna í miðju stökki, steypist niður með hausinn á undan og lendi með öll mín 100 og eitthvað kíló á öxlinni. Ég tognaði illa og keppnistimabilið út um gluggann. Liðið endaði svo á að komast á heimsleikana en ég sat í stúkunni að bakast í LA-sólinni. Mér finnst þetta bara fyndið í dag og til er myndband af þessu fyrir áhugasama.“

Þröstur Ólafsson, betur þekktur sem Thruster, 29 ára.

Þetta er í annað sinn sem hann fer á leikana.

Sterkustu æfingar: „Ég kem úr kraftlyftingum svo bara því þyngra því betra.“

Byrjaði í CrossFit: „Ég þekkti nokkra úr Crossfit og langaði að prufa eitthvað nýtt. Sé ekki eftir því.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×